Hoppa yfir valmynd
3. september 2014 Utanríkisráðuneytið

Efnahagsráð norðurslóða stofnað

Stofnfundur Efnahagsráðs norðurslóða (e. Arctic Economic Council)  fór fram í Iqaluit í Norður-Kanada í dag. Fulltrúar viðskiptalífs allra norðurskautsríkjanna átta og samtaka frumbyggja á norðurslóðum tóku þátt í þessum fyrsta fundi þess. Ísland á tvo fulltrúa í Efnahagsráðinu og sótti formaður Norðurslóða-viðskiptaráðs Íslands fundinn, auk fulltrúa Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir stofnun Efnahagsráðs norðurslóða vera gleðitíðindi. „Íslensk fyrirtæki hafa sýnt mögulegum sóknarfærum á norðurslóðum aukinn áhuga, meðal annars varðandi auðlindanýtingu, verktakastarfsemi, ferðaþjónustu og samgöngur. Þessi nýi vettvangur verður vafalaust mikilvægur þáttur í að byggja upp viðskiptasamstarf milli ríkja á svæðinu og búa í haginn fyrir þá sem vilja taka þátt í því, þar með talin íslensk fyrirtæki.“

Undirbúningur að stofnun Efnahagsráðs norðurslóða hefur staðið yfir í um eitt ár og er það liður í formennskuáætlun Kanada 2013-2015 í Norðurskautsráðinu en Ísland, ásamt Finnlandi, Rússlandi og formennskuríkinu hafa leitt vinnuna innan ráðsins. Stjórnvöld og viðskiptalífið hafa í sameiningu unnið að undirbúningi að stofnun ráðsins en markmið þess er að skapa vettvang til að hlúa að viðskiptum, og ábyrgri auðlindanýtingu á norðurslóðum.

Efnahagsráð norðurslóða verður sjálfstæður vettvangur og verður meginmarkmið ráðsins að stuðla að sjálfbærri og ábyrgri þróun, efnahagsvexti og samfélagsþróun á norðurslóðum og stuðla að stöðugu, fyrirsjáanlegu og gagnsæu viðskiptaumhverfi. Mun Efnahagsráðið sjálft ákvarða fjölda þátttakenda, stjórn þess og stjórnarhætti. Á stofnfundinum í Iqaluit var samþykkt að Kanada yrði fyrsta ríkið til að gegna formennsku í ráðinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum