Hoppa yfir valmynd
2. september 2014 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra og lögmaður Færeyja funda um Hoyvíkur-samninginn

Hoyvikurfundur.

Á árlegum fundi Hoyvíkurráðsins sem haldinn var í Reykjavík í dag, ræddu Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, um rekstur Hoyvíkur-samningsins. Aleqa Hammond, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, ásamt sendinefnd sat einnig fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er það í fyrsta skipti sem fulltrúar Grænlands hafa áheyrnaraðild að fundi Hoyvíkur-ráðsins.

Á fundinum var rætt um rekstur Hoyvíkur-samningsins en hann er, að EES-samningnum frátöldum, víðtækasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefur gert. Hann tekur meðal annars til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, stofnsetningarréttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga.

Auk umræðna um Hoyvíkur-samninginn ræddu ráðherrarnir ásamt formanni grænlensku landsstjórnarinnar m.a. um vestnorrænt samstarf. Þau voru öll sammála um nauðsyn þess að efla samstarf vestnorrænu landanna á sviðum eins og í sjávarútvegi, viðskiptum, heilbrigðismálum og menningu.

Í tengslum við fund Hoyvíkur-ráðsins átti utanríkisráðherra í gær fund með utanríkismálanefnd lögþings Færeyja. Á þeim fundi var meðal annars rætt um rekstur Hoyvíkur-samningsins, stefnu í norðurslóðmálum, vestnorræna samvinnu og stöðuna í Rússlandi og í Miðausturlöndum. Sama dag átti ráðherra einnig, ásamt lögmanni Færeyja og formanni grænlensku landsstjórnarinnar, fund með vestnorræna ráðinu sem skipað er þingmönnum frá löndunum þremur.

Næsti fundur Hoyvíkur-ráðsins verður haldinn í Færeyjum sumarið 2015 og mun hann marka 10 ára afmæli samningsins. Utanríkisráðherra og lögmaður Færeyja urðu sammála um að stefna að því að halda ráðstefnu um Hoyvíkur-samninginn í tengslum við þann fund og bjóða sérstaklega til hans fulltrúum Grænlands. Af sama tilefni verði hvatt til þess að fulltrúar viðskiptalífs ríkjanna og fyrirtæki komi saman og beri saman bækur um hvernig stuðla megi að auknum gagnkvæmum viðskiptum milli ríkjanna á grundvelli samningsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum