Hoppa yfir valmynd
22. maí 2014 Utanríkisráðuneytið

Nemar útskrifast úr Jafnréttisskóla Háskóla SÞ 

Jafnrettisskola-Haskola-STh
Jafnrettisskola-Haskola-STh
Fjórtan nemendur frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi útskrifuðust í dag við hátíðlega athöfn. 

Í þessum hópi eru 8 konur og 6 karlar og er þetta í annað sinn sem skólinn útskrifar nemendur eftir að hann varð hluti af neti skóla Háskóla SÞ fyrir einu ári. Nemendurnir sem útskrifuðust í dag koma allir frá Malaví, Mósambík, Úganda og Palestínu en öll eru þau lönd sem Ísland leggur höfuðáherslu á í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.


Við útskriftina flutti Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, ávarp þar sem hann óskaði nemendum skólans til hamingju með áfangann, Hann þakkaði einnig forsvarsmönnum skólans og nemendum fyrir gott samstarf við ráðuneytið hvað varðar ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðannan nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Í ávarpinu kom ráðuneytisstjóri jafnframt inn á þá vinnu sem nú stendur yfir á vettvangi SÞ við mótun nýrra þróunarmarkmiða, en Ísland leggur einmitt áherslu á að jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna verði miðlæg í nýjum markmiðum.

Á Íslandi starfa fjórir skólar undir hatti Háskóla SÞ: Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn. Sá síðastnefndi hefur það að markmiði að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum, sem starfa að jafnréttismálum, þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum