Hoppa yfir valmynd
27. maí 1997 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur OECD

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 49
Dagana 26.-27. maí var haldinn í París árlegur ráðherrafundur Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Fundinn sátu utanríkis- og viðskiptaráðherrar, ásamt efnahags- og fjármálaráðherrum stofnunarinnar. Af Íslands hálfu sátu fundinn Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, og Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra.
Á fundinum var rætt um alþjóðaviðskipta- og fjárfestingarmálefni, samskiptin við ríki utan OECD, stækkun þess, framtíðarhlutverk OECD og efnahags- og atvinnumál.
Ráðherrarnir áréttuðu að alþjóðaviðskipti og fjárfestingar gegna lykilhlutverki við að skapa ný störf, auka framleiðni og bæta lífskjör. OECD hafi mikilvægu hlutverki að gegna í því sambandi.
Ráðherrarnir lýstu yfir ætlun sinni að ljúka fjölþjóðlegum fjárfestingarsáttmála fyrir ráðherrafund OECD 1998. Í þessu sambandi lagði utanríkisráðherra m.a. áherslu á mikilvægi sáttmálans fyrir Ísland og þess að dregið verði úr fjárfestingarívilnunum þannig að þær verði ekki misnotaðar og hafi þannig áhrif á eðlilega samkeppni. Einnig lagði hann áherslu á að varkárni yrði að sýna varðandi fjárfestingar og umhverfismál. Ekki mætti misnota umhverfisvernd í alþjóðaviðskiptum og fjárfestingum.
Ráðherrarnir ákváðu að hefja ætti strax samningaviðræður innan OECD um gerð fjölþjóðlegs sáttmála um aðgerðir gegn mútum í alþjóðaviðskiptum með það að markmiði að ljúka þeim fyrir lok þessa árs. Einnig mæltu þeir með því að aðildarríki OECD settu löggjöf sem fæli í sér að mútur í alþjóðaviðskiptum teldust refsivert athæfi.
Fimm ný ríki hafa gerst aðilar að OECD frá því 1994 (Kórea, Tékkland, Pólland, Ungverjaland og Mexíkó). Ráðherrarnir áréttuðu að OECD yrði áfram opið fyrir nýjum aðildarríkjum svo lengi sem þau uppfylltu staðla OECD.
Ráðherrarnir fögnuðu aukinni samvinnu milli OECD og Rússlands. Slík samvinna myndi auðvelda Rússlandi að koma á fót þróuðu markaðshagkerfi og auðveldaði Rússum að uppfylla öll skilyrði fyrir aðild að OECD.
Ráðherrarnir skiptust á skoðunum um efnahags- og atvinnumál OECD-ríkjanna, m.a. hvernig aðildarríkin geti stuðlað að hagvexti á varanlegum grunni. Þeir fjölluðu um atvinnuleysisvandann og breytingar á lögum og reglugerðum í því skyni að auka framleiðni og afköst í atvinnulífinu.
Fjármálaráðherra lagði sérstaka áherslu á að ráðstafanir í efnahagsmálum þyrftu að taka mið af langtímasjónarmiðum. Meðal annars þyrfti að efla lífeyrissparnað og samræma hlutverk lífeyrissjóða og velferðarkerfisins almennt til að tryggja sjálfstæði og fjárhag eldra fólks, en því mun fjölga verulega á næstu árum og áratugum.
Meðfylgjandi er yfirlýsing fundarins.


Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 27. maí 1997

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum