Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2013 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fjallar um öryggismál á norðurslóðum

Ráðherrar Danmerkur, Kanada og Íslands ræða norðurslóðamál.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók  þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um utanríkis- og öryggismál Halifax International Security Forum sem fram fer um helgina í Halifax í Kanada.

Halifax International Security Forum leiðir saman 300 þátttakendur í umræðum um frið og öryggismál heimsins. Ráðstefnuna sækja meðal annars leiðtogar frá 50 löndum, fulltrúar friðar og mannúðasamtaka og meðlimir þjóðþinga.

Utanríkisráðherra  tók þátt í pallborðsumræðum  um málefni norðurslóða, ásamt varnarmálaráðherrum Kanada og Danmörku.

Voru ráðherrarnir sammála um að Norðurskautsráðið væri vel heppnað. Þar komi saman ólíkir hagsmunir og unnið sé með styrkleika hvers ríkis að sameiginlegum markmiðum. Þróun norðurslóða er að þeirra mati friðvænleg og hefur einkennst af nánu samstarfi á sviði öryggismála.

Í umræðunum lagði utanríkisráðherra áherslu á gildi alþjóðalaga, einkum Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, mikilvægi alþjóðasamstarfs og rannsóknasamvinnu fyrir friðsamlega og sjálfbæra þróun á norðurslóðum.

Benti ráðherra á að stærstu áskoranirnar á svæðinu væru ekki tengdar hernaðarlegu öryggi heldur öryggi samfélaga og umhverfis. Norðurskautsráðið væri að styrkjast og að aðildarríki ráðsins hefðu nú þegar undirritað tvo þýðingamikla alþjóðasamninga um leit og björgun og viðbrögð við olíumengun í hafi. Gunnar Bragi sagði brýnt að efla enn frekar hagnýtt  samstarf ríkjanna um umhverfisöryggi, uppbyggingu innviða og björgunarmál.

Meðan á dvölinni stóð í Halifax átti utanríkisráðherra einnig fundi með útflutningsráði Nova Scotia fylkis og íslenskum og kanadískum aðilum úr viðskiptalífi Halifax.

Hægt er að horfa á pallborðsumræðurnar hér: www.halifaxtheforum.org

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum