Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2013 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra hvetur til viðræðna um fríverslun við Suður-Ameríkuríki

EFTA ráðherrar með varaviðskiptaráðherra Filippseyja,

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í ráðherrafundi Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, sem haldinn var í Genf.

Á fundinum lagði utanríkisráðherra áherslu á að stefna ætti að ljúka fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna við tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan þegar á næsta ári. Á fundinum kom einnig fram að viðræður EFTA við Indland hafi miðað vel áfram síðustu mánuði og stefna EFTA-ríkin á að ljúka þeim viðræðum á næstunni.

Utanríkisráðherra hvatti EFTA til að hefja viðræður við Kanada um endurskoðun á fríverslunarsamningi þess við EFTA frá árinu 2008. Jafnframt hvatti utanríkisráðherra til þess að EFTA-ríkin skoðuðu vandlega hvort hefja mætti fríverslunarviðræður við Brasilíu og önnur aðildarríki Mercosur, tollabandalags Suður-Ameríkuríkja.

Ráðherrarnir ræddu fríverslunarviðræður Evrópusambandsins og Bandaríkjanna og fögnuðu því að EFTA hefur nýlega komið á fót samráðsvettvangi með stjórnvöldum í Bandaríkjunum. EFTA-ríkin munu fylgjast grannt með þróun þessara viðræðna og meta vandlega áhrif þeirra á hagsmuni aðildarríkja sinna. Í vikunni funda embættismenn EFTA-ríkjanna með bandarískum stjórnvöldum í Washington um viðskipti ríkjanna.

Á fundinum fjölluðu ráðherrarnir einnig um stöðuna í fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna við Víetnam og Indónesíu. Fögnuðu ráðherrarnir því að Taíland ákvað nýlega að taka aftur upp þráðinn í fríverslunarviðræðum þess við EFTA en upp úr þeim slitnaði árið 2006.

Þá áttu ráðherrarnir fund með Adrian Cristobal, varaviðskiptaráðherra Filippseyja, og ræddu við hann um frekara samstarf EFTA og Filippseyja. Ráðherrarnir vottuðu filippísku þjóðinni samúð sína og greindu frá þeim aðgerðum og aðstoð sem EFTA ríkin veita til þeirra sem eiga um sárt að binda í kjölfar fellibylsins í síðustu viku.

Næsti ráðherrafundur EFTA verður haldinn í Vestmannaeyjum í júní á næsta ári

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum