Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2013 Utanríkisráðuneytið

Lögfræðiálit um hlé á aðildarviðræðum við ESB lagt fram í utanríkismálanefnd

Á fundi utanríkismálanefndar í morgun lagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fram lögfræðilega álitsgerð vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og að stöðva frekari vinnu samninganefndar og –hópa. Álitsgerðin var unnin í kjölfar fyrirspurnar þriggja nefndarmanna í utanríkismálanefnd, sem óskuðu eftir að skýrð væru “þau stjórnskipulegu valdmörk sem framkvæmdarvaldinu eru sett gagnvart ferli umsóknar um aðild að Evrópusambandinu” samkvæmt ályktun Alþingis nr. 1/137 frá 16. júlí 2009, um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Í álitsgerðinni er fjallað um lagalega þýðingu þingsályktana í þeim skilningi hvort þær geti haft bindandi áhrif. Niðurstaða hennar er sú að þingsályktanir sem ekki byggjast á sérstakri heimild í lögum eða stjórnarskrá bindi stjórnvöld ekki umfram það sem af þingræðisvenjunni leiðir.

Í bréfi til utanríkismálanefndar sem fylgir álitsgerðinni segir utanríkisráðherra að ályktun sú sem vísað sé til hafi verið samþykkt af öðrum þingmeirihluta er nú situr. Núverandi stjórnarflokkar  hafi báðir haft á stefnuskrá sinni að gera hlé eða hætta þeim viðræðum sem ályktunin fjallar um og augljóst var fyrir kosningarnar að þeir stæðu henni ekki að baki. Að fengnu þessu áliti verði ríkisstjórnin því ekki talin bundin af að fylgja þessari ályktun eftir. Af sjálfu leiði að sama gildi um heimildir ráðherra til að víkja frá því skipulagi sem vísað var til í nefndaráliti með þingsályktunartillögunni.

Að fengnu þessu áliti hefur utanríkisráðherra ákveðið að taka til skoðunar að leysa samninganefndina sem skipuð var til að leiða aðildarviðræður við Evrópusambandið og einstaka samningahópa frá störfum til að þeir sem þar hafa setið geti snúið sér að öðrum verkefnum.

Lögfræðileg álitsgerð
Bréf utanríkisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum