Hoppa yfir valmynd
13. júní 2013 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með Stefan Füle

Gunnar Bragi Sveinsson og Stefan Füle

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, átti síðdegis í dag fund í Brussel með Stefan Fule, stækkunarstjóra Evrópusambandsins. Á fundinum gerði utanríkisráðherra grein fyrir ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar að gera hlé á aðildarviðræðum Íslands og ESB og að þeim yrði ekki framhaldið fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Næsta skref væri hins vegar að gera úttekt á stöðu viðræðnanna, sem og þróun mála innan Evrópusambandsins frá því að Íslands sótti um, sem nýtt Alþingi myndi svo fjalla um.

Utanríkisráðherra ítrekaði jafnframt áherslu nýrrar ríkisstjórnar á áframhaldandi góð samskipti við Evrópu. Hann lýsti vilja sínum og ríkisstjórnar að styrkja þátttöku Íslands í EES-samstarfinu, og efla enn frekar samstarf Íslands og ESB á sviði endurnýjanlegrar orku, málefna norðurslóða, sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá óskaði utanríkisráðherra eindregið eftir því að fá að fylgjast náið með undirbúningi fyrirhugaðs fríverslunarsamnings Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, enda myndi slíkur samningur hafa bein áhrif á Ísland og önnur EES-ríki, og undirstrikaði mikilvægi almenns viðskiptasamráðs Íslands og ESB.

Fyrr um daginn átti ráðherra fund með utanríkisráðherra Litháens, Linas Linkevicius, en Litháar taka við formennsku í ráðherraráði ESB 1. júlí næstkomandi. Á fundinum kynnti Gunnar Bragi ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hlé á aðildarviðræðum og ræddi auk þess farsælt samstarf Íslands og Litháens. Þá kynnti utanríkisráðherra sér einnig í dag starfsemi EFTA og átti fund með framkvæmdastjóranum, Kristni F. Árnasyni. Á dagskrá var komandi ráðherrafundur EFTA dagana 23.-25. júní þar sem meðal annars verður fjallað um viðskiptasamninga EFTA og almenna þróun mála á því sviði. Einnig ræddu þeir helstu áskoranir á vettvangi EES samningsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum