Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2013 Utanríkisráðuneytið

Fríverslunarsamningur Íslands og Kína undirritaður

Undirritun fríverslunarsamnings Íslands og Kína
Undirritun fríverslunarsamnings Íslands og Kína
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra Kína, undirrituðu í dag í Peking fríverslunarsamning milli Íslands og Kína að viðstöddum forsætisráðherrum ríkjanna. Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur sem Evrópuríki gerir við Kína og veitir íslenskum fyrirtækjum og útflutningsgreinum forskot á ört vaxandi Kínamarkað. 

„Þetta er sögulegur samningur sem mun skapa störf á Íslandi eins og þegar eru komin fram dæmi um í þessari ferð, og opna ótal tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf og útflutning” segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. „Fríverslun við Kína gefur íslenskum fyrirtækum sérstakt forskot inn á þann markað heimsins sem vex langhraðast. Sú staðreynd að Ísland er fyrsta Evrópuríkið sem nær slíkum samningi við Kína skapar íslensku atvinnulífi einstakt forskot.  Það sjáum við strax á þeim samningum sem íslensku fyrirtækin eru að gera hér í þessari ferð okkar til Kína.“  

Helsti ávinningur fríverslunarsamningsins við Kína er niðurfelling tolla á öllum helstu útflutningsafurðum Íslands. Þar með er miklum hindrunum rutt úr vegi útflutnings íslenskrar framleiðslu til Kína. 

Allar sjávarafurðir verða þannig tollfrjálsar, flestar strax eftir gildistöku samningsins, en örfáar að loknum 5 eða 10 ára aðlögunartíma. Algengir tollar á þeim, og mörgum öðrum mikilvægum afurðum sem Ísland flytur út, hafa verið á bilinu 10-12%. Með samningnum er líka skapaður vettvangur þar sem íslensk stjórnvöld geta  tekið upp öll þau vandkvæði sem upp kunna að koma í viðskiptum ríkjanna.  Líkt og í öðrum fríverslunarsamningum fellir Ísland á móti niður tolla á innfluttum vörum, að undanskildum ákveðnum landbúnaðarafurðum. Þannig skapast skilyrði fyrir lægra verð til íslenskra neytenda á þeim vörum sem fluttar eru inn frá Kína og bera tolla í dag. 

Fríverslunarsamningurinn við Kína er að uppbyggingu og innihaldi sambærilegur öðrum samningum sem Ísland hefur gert sem aðildarríki EFTA. Hann kveður meðal annars á um vöru- og þjónustuviðskipti, upprunareglur og hugverkavernd. Ekki var samið um aukinn aðgang kínverskra starfsmanna og þjónustuveitenda til Íslands og um hann munu gilda sömu lög og reglur og áður. Engar breytingar verða á reglum um fjárfestingar en frá 1994 er í gildi samningur um vernd gagkvæmra fjárfestinga. Samningurinn kveður hins vegar á um að ríkin skuli auka samstarf sitt svo sem á sviði umhverfisverndar og vinnumála.

Á fundinum, þar sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra undirrituðu fríverslunarsamninginn voru sömuleiðis undirritaðir fimm viðskiptasamningar milli íslenskra og kínverskra fyrirtækja, og aðrir fimm verða undirritaðir síðar í ferðinni. Þeir samningar sem undirritaðir voru í dag voru á milli Arion banka og Þróunarbanka Kína, Orku Energy og Sinopec og Þróunarbanka Kína, Marorku og Rannsóknarstofnunar um orkusparnað skipavéla, Össurar hf. og Endurhæfingar- og fötlunarsambands Kína, og Prómens og Héraðsstjórnarinnar í Taicang.

Verðmæti útflutnings frá Íslandi til Kína nam á síðasta ári 7,6 milljörðum króna og hafði þá tvöfaldast milli áranna 2010 og 2012. Kínverskum ferðamönnum til Íslands fjölgar einnig jafnt og þétt en ferðaþjónusta er vaxandi þáttur í viðskiptum ríkjanna.

„Það er marks um mikilvægi þessa samnings sem undiritaður var í dag að með í för eru yfir fimmtíu fulltrúar frá um tuttugu kraftmiklum íslenskum fyrirtækjum, stórum og smáum. Við höfum haft í nógu að snúast í utanríkisráðuneytinu og sendiráði Íslands í Kína að svara fyrirspurnum og greiða götu þeirra fjölmörgu sem eru einbeittir í að nýta þau tækifæri sem hér eru að skapast“, segir utanríkisráðherra. 

Kína er ört vaxandi markaður og annað stærsta hagveldi heims. Áætlað er að millistéttin í Kína telji í dag yfir 300 milljónir manna sem er álíka margir og íbúar Bandaríkjanna. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) spáir því að Kína muni hafa hæstan hagvöxt allra helstu iðnvelda heims að minnsta kosti allt til ársins 2020 og að Kína muni leysa Bandaríkin af sem stærsta hagkerfi heims árið 2017. 

Í tilefni af undirrituninni gáfu forsætisráðherrar Íslands og Kína út sameiginlega yfirlýsingu um aukna samvinnu ríkjanna. Samkvæmt henni er reglubundið samráð ríkjanna um pólitísk málefni formfest þar sem meðal annars verður fjallað um mannréttindamál, jafnréttismál, vinnumál, málefni norðurslóða, sem og samvinnu ríkjanna á sviði jarðvarma, menningarmála, menntamála og ferðaþjónustu.

Á morgun verður haldið viðskiptaþing í Peking þar sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, mun fjalla um þau tækifæri sem samningurinn felur í sér. Þar verða undirritaðir nokkrir viðskiptasamningar milli íslenskra og kínverskra fyrirtækja. 

Nánari upplýsingar um samninginn, tilurð hans og meginefni er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Samningurinn hefur verið birtur í heild sinni á vef utanríkisráðuneytisins í dag.

Fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

Staðreyndablað um fríverslunarsamning Íslands og Kína.

Sameiginleg yfirlýsing forsætisráðherra Íslands og Kína. 

Yfirlit um uppbyggingu fríverslunarsamnings Íslands og Kína. 

Upplýsingavefur um fríverslunarsamning Íslands og Kína þ. á m. spurningar og svör. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum