Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2012 Utanríkisráðuneytið

Íslenskt viðskiptaumhverfi opið og viðskiptastefna Íslands í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar

Reglubundinni endurskoðun á viðskiptastefnu Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO)  lauk í dag í Genf í Sviss. Fyrir endurskoðunina vann WTO  úttekt á viðskiptastefnu Íslands og við endurskoðunina gafst aðildarríkjum WTO tækifæri til að koma með spurningar um og gera athugasemdir við viðskiptastefnu Íslands á jafningjagrundvelli.

Aðildarríkin töldu að Íslandi hefði heppnast vel að takast á við hinar erfiðu efnahagsaðstæður sem sköpuðust í kjölfar efnahagsáfalla 2008. Sérstaklega var eftir því tekið að Ísland hafi ekki gripið til viðskiptahindrana í kjölfar efnahagsörðugleika síðustu ára. Helstu spurningar og athugasemdir aðildarríkjanna beindust að afnámi gjaldeyrishafta og innflutningsfyrirkomulagi landbúnaðarafurða (tollar og heilbrigðiskröfur). Niðurstaða endurskoðunarinnar er að íslenskt viðskiptaumhverfi sé opið og viðskiptastefna Íslands í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Úttektin fer fram á sex ára fresti og er þá fjallað um stöðu efnahagsmála og helstu breytingar sem hafa átt sér stað í viðskiptaumhverfi landsins frá síðustu úttekt. Þetta er í fjórða sinn sem endurskoðun fer fram gagnvart Íslandi.  Með endurskoðunarferlinu fylgjast aðildarríkin með breytingum á viðskiptastefnu hvers annars. Tilgangurinn er að auka gagnsæi og skapa grundvöll fyrir frekari framfarir í alþjóðlegum viðskiptum.

 Högni S. Kristjánsson, sviðstjóri viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins, fór fyrir sendinefnd Íslands, en auk annarra fulltrúa utanríkisráðuneytisins sátu fundinn fulltrúar fjármála- og efnhagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis ásamt fastanefnd Íslands í Genf.

Nánari upplýsingar um endurskoðunina:

Opnunarræða f.h. Íslands

Lokaorð f.h. Íslands

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum