Hoppa yfir valmynd
12. október 2012 Utanríkisráðuneytið

Lokið við gerð alþjóðasamnings um samstarf vegna olíumengunar í hafi á norðurslóðum

samingafundur-um-mengunarvarnir-a-nordurslodum

Á fundi aðildarríkja Norðurskautsráðsins, sem haldinn var í Reykjavík 9.-11. október, var lokið gerð alþjóðasamnings um samstarf vegna olíumengunar í hafi á norðurslóðum. Fundinn sóttu um 70 sérfræðingar frá Bandaríkjunum, Danmörku fyrir hönd Færeyja og Grænlands, Finnlandi, Íslandi, Kanada, Noregi, Rússlandi og Svíþjóð. Utanríkisráðherrar norðurskautsríkjanna ákváðu, á ráðherrafundi í Nuuk á Grænlandi 2011, að ráðist yrði í gerð samningsins og byggt yrði á fordæmi samnings um leit og björgun sem undirritaður var á sama fundi.
 
Samkomulagið felur í sér gagnkvæmar skuldbindingar um að veita aðstoð vegna olíumengunar á hafi, aukið samstarf, æfingar og upplýsingamiðlun milli viðbragðsaðila á svæðinu. Ríkin búa yfir margvíslegri sérþekkingu og búnaði til að bregðast við olíumengun á fjarlægum, köldum eða ísilögðum hafsvæðum. Sérfræðingar norðurskautsríkjanna munu halda áfram að vinna frekari tillögur um verklag og tæknileg atriði á grundvelli samningsins.  Gerð samningsins fellur einkar vel að stefnu íslenskra stjórnvalda í norðurslóðamálum en þau hafa lagt mikla áherslu á að efla Norðurskautsráðið sem meginsamstarfsvettvanginn fyrir málefni norðurslóða og samstarf norðurskautsríkjanna um að styrkja viðbragðsgetu á norðurheimskautssvæðinu.  
 
Samkomulagið verður undirritað á næsta ráðherrafundi ráðsins sem haldinn verður í Kiruna Svíþjóð í maí nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum