Hoppa yfir valmynd
28. september 2012 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á Allsherjarþingi SÞ

UN-opening-day

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tekur þessa vikuna þátt í störfum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York. Ráðherrann var viðstaddur opnun þingsins á þriðjudag þar sem Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Vuk Jeremić, forseti allsherjarþingsins, og forsetar Brasilíu og Bandaríkjanna fluttu fyrstu ræðurnar. Utanríkisráðherra hefur jafnframt tekið þátt í fjölda ráðherrafunda sem haldnir eru samhliða allsherjarþinginu.

Á reglulegum fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna var fjallað um málefni Mið-Austurlanda og átökin í Sýrlandi, áframhaldandi vinnu við gerð alþjóðasamnings um vopnaviðskipti og framlög Norðurlandanna til friðaruppbyggingar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þá fjölluðu ráðherrarnir sérstaklega um jafnréttismál, en Ísland er í farabroddi ríkja sem þrýsta nú á um öflugri eftirfylgni á samþykktum kvennaráðstefnunnar sem haldin var í Beijing árið 1995.

Þá tók utanríkisráðherra þátt í árlegum fundi Evrópuríkja með Bandaríkjunum og Kanada og í fyrsta sinn áttu utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Benelux-ríkjanna með sér sérstakan samráðsfund. Auk þess áttu norrænu utanríkisráðherrarnir fund með ráðherrum sjö Mið-Ameríkuríkja og munu jafnframt funda með ráðherrum Karíbahafsríkjanna sem mynda CARICOM.

Utanríkisráðherra flytur ræðu Íslands á allsherjarþinginu á morgun laugardag, rétt upp úr kl. 13:00 að íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu á vefsíðu Sameinuðu þjóðanna:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum