Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2012 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður hertar aðgerðir SÞ gagnvart Sýrlandi

Íslensk stjórnvöld lýsa yfir fullum stuðningi við hertar aðgerðir alþjóðasamfélagsins gagnvart Sýrlandi. Tillaga þess efnis er nú til umfjöllunar á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að frumkvæði Bretlands, Bandaríkjanna, Frakklands, Portúgal og Þýskalands.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ítrekar fordæmingu á framferði sýrlenskra stjórnvalda og síauknar árásir vopnaðra sveita á þeirra vegum á almenna borgara. Voðaverk stjórnvalda í Sýrlandi brjóta í bága við alþjóðleg mannúðarlög og fyrri ályktanir öryggisráðsins. Öllu ofbeldi verður að linna, hver svo sem ber ábyrgð á því.

Ísland hvetur því öll aðildarríki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að sameinast um ályktunardrög sem lögð hafa verið fram af fyrrgreindum fimm ríkjum og kveða á um að gripið verði til þvingunaraðgerða kjósi sýrlensk stjórnvöld að framfylgja ekki tafarlaust ályktunum ráðsins.

Ísland styður áframhaldandi friðarumleitanir Kofi Annan og yfirlýsingu aðgerðahópsins um málefni Sýrlands sem samþykkt var á fundi hópsins hinn 30. júní síðastliðinn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum