Hoppa yfir valmynd
4. maí 2012 Utanríkisráðuneytið

Innleiðing hertra Evrópureglna um fjármálamarkaði annmörkum háð

Í álitsgerð lagaprófessorana Stefáns Más Stefánssonar og Bjargar Thorarensen frá 25. apríl sl. er komist að þeirri niðurstöðu að upptaka í EES-samninginn og innleiðing hér á landi á nýjum reglum Evrópusambandsins um eftirlitskerfi með fjármálamörkuðum í Evrópu feli í sér framsal framkvæmdavalds og dómsvalds sem að óbreyttu samræmist ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Evrópuþingið og ráðherraráð ESB samþykktu á árinu 2010 löggjöf um nýtt og hert eftirlitskerfi með fjármálamörkuðum í Evrópu. Um er að ræða reglugerðir um stofnun þriggja nýrra eftirlitsstofnana á sviði bankamála, verðbréfamála og vátryggingar- og starfstengdra lífeyrismála sem og reglugerð um stofnun evrópskrar kerfisáhættunefndar. Meðal verkefna eftirlitsstofnananna er að leysa úr deilumálum og taka ákvarðanir gagnvart einstökum eftirlitsskyldum aðilum í aðildarríkjunum.

Að undanförnu hefur fyrirhuguð upptaka í EES-samninginn á þessari löggjöf verið til skoðunar á vettvangi EES. Fulltrúar tveggja EFTA-ríkja, Íslands og Noregs, hafa þar bent á stjórnskipuleg vandamál sem ríkin standa frammi fyrir gagnvart þessu nýja lagaumhverfi, þar sem líklegt væri að í upptöku reglnanna í EES-samninginn og innleiðingu þeirra í ríkjunum fælist meira framsal opinbers valds en staðist fengi ákvæði stjórnarskráa ríkjanna. Tillögur hafa verið gerðar um lausnir á þessu álitamáli, en fulltrúar ESB hafa hingað til hafnað slíkum hugmyndum.

Óskað var eftir framangreindu lögfræðiáliti á því hvort innleiðing fyrrgreindra reglna ESB væri annmörkum háð með tilliti til ákvæða stjórnarskrárinnar.

Í álitinu kemur fram að upptaka reglnanna í EES-samninginn og innleiðing þeirra hér á landi sé annmörkum háð með tilliti til íslensku stjórnarskrárinnar. Í þeim felist yfirþjóðlegt vald eftirlitsstofnana þar sem þátttökuréttur Íslands í ákvörðunum sé ekki tryggður. Með innleiðingu gerðanna yrði stigið skrefi lengra í framsali framkvæmdavalds og dómsvalds en áður hefur verið fallist á að rúmist innan 2. gr. stjórnarskrárinnar. Í ljósi þessa telja Björg og Stefán Már að framsalið rúmist ekki innan venjuhelgaðrar reglu um að almenna löggjafanum sé heimilt að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli til alþjóðastofnana.

Í álitinu benda þau jafnframt á mögulegar leiðir til að taka reglurnar upp í EES-samninginn og innleiða hér á landi. Slíkar leiðir fælu í sér að sérlausnum yrði beitt gagnvart EES EFTA-ríkjunum. Vafi leikur hins vegar á því hvort ESB muni fallast á slíkar sérlausnir.

Í lokaorðum Stefáns Más og Bjargar kemur fram að í EES-samstarfinu vakni stöðugt fleiri álitaefni um hvort farið sé út fyrir mörk stjórnarskrárinnar með þróun EES-samningsins og innleiðingu löggjafar sem stefna að auknu valdframsali til alþjóðastofnana. Því sé mikilvægt að huga að nauðsynlegum stjórnarskrárbreytingum til þess að tryggja að löggjafinn starfi innan þeirra marka sem leidd verða af stjórnarskránni um alþjóðlegt samstarf.

Álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Bjargar Thorarensen frá 25. apríl sl.  

Samantekt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum