Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2012 Utanríkisráðuneytið

Undirritun samstarfssamninga við Kína um  jarðhitasamstarf og heimskautamál

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra Íslands og Yang Jiechi, utanríkisráðherra Kína
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra Íslands og Yang Jiechi, utanríkisráðherra Kína

Í tengslum við opinbera heimsókn forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, til Íslands undirritaði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu í dag samkomulag við Kínverja um jarðhitasamvinnu og samninga um samstarf í heimskautamálum.

Jarðhitasamstarfið snýr að samvinnu í þróunarríkjum og var samkomulagið undirritað af utanríkisráðherra Íslands og Xu Shaoshi, ráðherra auðlinda- og landnýtingar í Kína.  Samkomulagið gefur tækifæri til þess að Ísland og Kína vinni sameiginlega að rannsóknum, forkönnunum, þróun og framkvæmd á virkjun jarðhita í þróunarríkjum, meðal annars mögulega aðkomu Kína að samstarfi Íslands og Alþjóðabankans um þróun jarðhitanýtingar í sigdalnum í austurhluta Afríku.

Þá undirrituðu utanríkisráðherra og Yang Jiechi, utanríkisráðherra Kína rammasamning um samstarf ríkjanna í málefnum norðurslóða með áherslur á rannsóknir og samgöngumál á norðurslóðum. Í tengslum við þann samning var svo undirritað samkomulag við Hafmálastofnun Kína um samstarf á sviði heimskauta- og hafrannsókna.  Samningurinn og samkomulagið skapa tækifæri til frekari samvinnu milli  íslenskra og kínverskra fræðimanna á sviði jöklafræði, loftslagsrannsókna, samgöngumála og hafrannsókna á heimskautasvæðum og á öðrum sviðum heimskautarannsókna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum