Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2012 Utanríkisráðuneytið

Fríverslun rædd við viðskiptaráðherra Kína

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Chen Deming viðskiptaráðherra Kína
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Chen Deming viðskiptaráðherra Kína

Í morgun átti Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fund með Chen Deming, viðskiptaráðherra Kína sem fer með utanríkisviðskipti en ráðherrann er í föruneyti kínverska forsætisráðherrans Wen Jiabao sem kemur í opinbera heimsókn til Íslands í dag.

Ráðherrarnir ræddu yfirstandandi fríverslunarsamningaviðræður Íslands og Kína þar sem utanríkisráðherra óskaði eftir því að ný lota í fríverslunarviðræðunum yrði haldin hið fyrsta og að tollalækkanir á fiskafurðum tækju gildi strax við gildistöku samningsins eða fyrr.

Ráðherrarnir fögnuðu auknum viðskiptum milli landanna og utanríkisráðherra hvatti Kínverja til að taka vel á móti íslenskum fyrirtækjum sem sæktu á Kínamarkað. Útflutningur frá Íslandi til Kína jókst um tæp 60% á milli áranna 2010 og 2011 og innflutningur frá Kína um rúm 20%. Þá sóttu um 9.000 kínverskir ferðamenn Ísland heim árið 2011 en það er um 80% aukning á milli ára.   

Á fundinum óskaði utanríkisráðherra óskaði eftir útvíkkun á loftferðasamningi ríkjanna sem kínverski ráðherrann sagðist myndu koma á framfæri og hvatti til þess að málið yrði rætt í sameiginlegri viðskiptanefnd landanna ásamt öðrum mikilvægum viðskiptamálum milli ríkjanna.

Utanríkisráðherra tók upp málefni norðurslóða og tækifærin sem breyttar siglingaleiðir myndu skapa til framtíðar. Kínverski ráðherrann fagnaði auknum viðræðum milli landanna um þau mál.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum