Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2012 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á fundi þingmannanefndar

Frá fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar
Frá fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ávarpaði í dag fjórða fund sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis Íslendinga og Evrópuþingsins sem haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu. Í máli sínu lýsti utanríkisráðherra ánægju sinni með gang samningaviðræðnanna um aðild Íslands að ESB en fjórir kaflar voru opnaðir síðasta föstudag og tveimur lokað samdægurs. Ráðherra sagði að vissulega hefðu vonir staðið til þess að hefja fyrr viðræður um hina stærri og efnismeiri samningskafla eins og sjávarútveg, landbúnað og byggðamál en fagnaði jafnframt yfirlýsingu Stefans Fule, stækkunarstjóra ESB, um að Evrópusambandið stefndi ótrautt að því að hefja viðræður um alla samningskafla fyrir lok þess árs.  Össur sagði vonbrigði hvernig mál hefðu þróast í viðræðum um makrílveiðar en vonaðist jafnframt eftir sátt allra samningsaðila sem allra fyrst. Varaði utanríkisráðherra eindregið við öllum einhliða viðskiptaðgerðum og sagði hugmyndir sem lægju fyrir þar að lútandi brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum, þar með talið EES-samningnum. Össur sagði Íslendinga fylgjast náið með þeim mikilvægu aðgerðum sem gripið hefði verið til á evrusvæðinu í kjölfar efnahagsþrenginganna í Evrópu og gerði grein fyrir batamerkjum í íslensku efnahagslífi.

Søren Haslund, sendiherra Dana á Íslandi og fulltrúi dönsku formennskunnar, og Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi, ávörpuðu einnig fundinn. Þá tók Mercedes Bresso, forseti svæðanefndar ESB (Committee of the Regions) þátt í honum ásamt Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og fleiri íslenskum og evrópskum sveitarstjórnarmönnum en samstarf Íslands og Evrópusambandsins í byggðamálum var sérstaklega til umfjöllunar að þessu sinni. Þá fékk nefndin kynningu á sjávarútvegsmálum, efnahagsmálum og grænni orku en Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpaði fundinn.

Sameiginlega þingmannanefndin var stofnuð eftir að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu og hélt sinn fyrsta fund í október 2010. Formenn nefndarinnar eru Árni Þór Sigurðsson og Pat the Cope Gallagher frá Írlandi. Nefndina skipa níu íslenskir þingmenn og níu evrópskir en þar að auki situr sérstakur fulltrúi utanríkismálanefndar Evrópuþingsins, Dan Preda, sem einnig er skýrslugjafi Evrópuþingsins um málefni Íslands, fundi nefndarinnar.

Frekari upplýsingar um þingmannanefndina má finna á vef Alþingis 

Myndir frá fundinum eru aðgengilegar á Facebook síðu utanríkisráðuneytisins 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum