Hoppa yfir valmynd
6. desember 2011 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðasamfélagið styður Afganistan

Áratugur er liðinn síðan fjölþjóðleg ráðstefna var haldinn í Bonn til að marka leiðina fyrir endurreisn og öryggi Afganistan eftir áralanga harðstjórn Talibana. Af þessu tilefni var 5. desember síðastliðinn haldin ráðstefna til að styrkja samstöðu alþjóðasamfélagsins til að leita friðar í landinu og stuðla að endurreisn og lýðræðisþróun. Ráðstefnan var sótt af fulltrúum 85 ríkja og leiðandi aðilum 15 alþjóðastofnana, þar á meðal Ban Ki Moon aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Niðurstöður fundarins, sem var undir forsæti Hamid Karzai forseta Afganistan með stuðningi frá Þýskalandi, voru þær að staðfesta stuðning alþjóðasamfélagsins við Afganistan í þeim erfiðu verkefnum sem þar eru framundan. Staðfestur var áframhaldandi stuðningur við Afgani á meðan þeir taka yfir verkefni alþjóðaliðsins á næstu þremur árum og á að ljúka 2014.  Einnig var þar lýst yfir pólitískri skuldbindingu um að alþjóðlegum stuðningi við Afganistan verði framhaldið eftir 2014 og þá fyrst og fremst á sviði lýðræðisþróunar, efnahagsuppbygginar og velferðarmála.  Mikilvægi mannréttinda voru áréttuð, þá sérstaklega réttindi kvenna. Ábyrgð nágrannaríkja við að stuðla að friðvænlegu umhverfi var einnig undirstrikuð. Afganistan skuldbindur sig jafnframt til að efla aðgerðir sínar á sviði góðra stjórnarhátta, lýðræðis og síðast en ekki síst baráttu gegn spillingu. Ítrekað var að friðsamleg lausn vandamála Afganistan felst ekki í hernaði heldur pólitískri lausn í formi lýðræðis og efnahagslegrar uppbyggingar, sem styðjist við friðarsamninga deiluaðila.

Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra, var fulltrúi Íslands á fundinum. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum