Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2011 Utanríkisráðuneytið

Ísland og Rússland: Fjarskiptastrengur, ættleiðingar, norðurslóðir og jarðhiti

OS-og-Lavrov2
OS-og-Lavrov2

Í gær átti Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fund með Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands í Moskvu. Fundurinn er liður í heimsókn utanríkisráðherra til Rússlands. Hann heimsótti einnig höfuðstöðvar rússneska skáksambandsins og ræddi við forystu þess um stuðning við fyrirhuguð áform Íslendinga um alþjóðleg skákmót. Áður hafði ráðherrann undirritað samkomulag sem greiðir fyrir sölu á mjólkurafurðum frá Íslandi þ. á m. mjólkurdufti og skyri.

Fjarskiptastrengur í hafi

Utanríkisráðherrar Íslands og Rússlands ræddu ítarlega möguleika á lagningu fjarskiptastrengs í hafi frá Rússlandi til Íslands. Lýsti utanríkisráðherra því markmiði að Ísland verði miðstöð fjarskipta um norðurslóðir. Íslenska fyrirtækið Norline og rússneska fyrirtækið Polarnet þróa nú samstarf um lagningu strengsins en fulltrúar þess eiga fundi í þessari viku í Moskvu. Takist samningar gæti strengurinn orðið tilbúinn fyrir lok árs 2013. Fjárfesting í strengnum nemur um 150 milljónum dollara. Hann gæti stytt verulega vegalengdina sem Rússar þyrftu ella að fara og gæti orðið umtalsverð lyftistöng fyrir gagnaver á Ísland í framtíðinni.

Ættleiðingar til Íslands

Á fundinum í Moskvu lýsti Sergei Lavrov utanríkisráðherra fullum vilja rússneskra stjórnvalda til að gera samkomulag um ættleiðingar barna frá Rússlandi til Íslands en utanríkisráðherra hefur síðustu misseri átt í ítarlegum viðræðum við rússnesk stjórnvöld um þær. Ráðherrarnir ákváðu að embættismenn ríkjanna funduðu um málið í Moskvu við fyrsta tækifæri. Utanríkisráðherra Íslands lagði mikla áherslu á að slíkum samningi yrði lokið sem fyrst, enda hefur svigrúm Íslendinga til ættleiðinga erlendis frá þrengst á síðustu árum.

Samstarf um norðurslóðir

Ráðherrarnir staðfestu jafnframt samkomulag um samvinnu á vettvangi norðurslóða. Ísland og Rússland munu vinna að framþróun flutninga á sjó og í lofti á norðurslóðum, með áherslu á siglingaleiðir um norðurskautið og uppbyggingu hafnarmannvirkja. Þá verður unnið að eflingu vísinda- og fræðasamstarfs milli stofnana og háskóla í ríkjunum tveimur. Ítrekaður er vilji til frekari samvinnu ríkjanna á vettvangi Norðurskautsráðsins, og nauðsyn þess að efla öryggi sjófarenda þegar norðursiglingar um heimskautasvæðin aukast. Munu bæði ríkin einnig beita sér fyrir að efla samstarf ríkja á norðurslóðum á sviði umhverfisverndar og mengunarvarna. Í yfirlýsingunni er vísað til sameiginlegra hagsmuna Íslands og Rússlands á norðurslóðum og vilja til samvinnu á vettvangi Norðurskautsráðsins og Barentsráðsins, sem og á tvíhliða grundvelli.

Samstarf um jarðhita

Ráðherrarnir undirrituðu ennfremur yfirlýsingu um nútímavæðingu á sviði atvinnumála (Declaration of Modernisation) sem miðar að því að stjórnvöld og sérfræðingar í Rússlandi og á Íslandi starfi saman að sameiginlegum framfaramálum. Markmiðið er að auka viðskipti, nýsköpun, tækniþróun og vísindi í samskiptum ríkjanna. Sérstaklega var rætt um sameiginlegan vinnuhóp ríkjanna tveggja til að framfylgja ofangreindri áætlun á sviði endurnýjanlegrar orku, ekki síst notkun jarðhita til orkuvinnslu í Kamsjatka og nýtingu jarðhita til hitaveitu á ýmsum svæðum í Rússlandi, m.a. Krasnodar. 

Þá ræddu ráðherrarnir um eflingu ferðaþjónustu milli ríkjanna, einkum væntingar um að beint flug milli ríkjanna geti hafist á næstu tveimur árum á grundvelli loftferðasamnings. Drjúgur tími fundarins fór jafnframt í viðræður ráðherranna um stöðuna í alþjóðamálum. Utanríkisráðherra Íslands gerði ítarlega grein fyrir tillögunni um viðurkenningu á fullveldi Palestínu en hún var einmitt til afgreiðslu á Alþingi meðan fundur ráðherranna stóð yfir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum