Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2011 Utanríkisráðuneytið

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Svartfjallaland undirritaður

montenegro-efta-group-picture-hd
montenegro-efta-group-picture-hd

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands var undirritaður í tengslum við ráðherrafund EFTA-ríkjanna sem haldinn var í Genf í dag. Þá ákváðu EFTA-ríkin að hefja fríverslunarviðræður við ríki í Mið-Ameríku. Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sat fundinn af Íslands hálfu.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Svartfjallaland er tuttugasti og fjórði fríverslunarsamningur sem EFTA-ríkin hafa lokið við. Auk fríverslunarsamningsins var einnig undirritaður tvíhliða landbúnaðarsamningur Íslands og Svartfjallalands.

Þá var fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna og Panama, Kostaríka og Hondúras ýtt úr vör á fundinum með formlegri athöfn. Af því tilefni ítrekuðu EFTA-ríkin boð til annarra ríkja Mið-Ameríku um þátttöku í framangreindum viðræðum.

Á fundinum lögðu EFTA-ríkin áherslu á að stefna bæri að ljúka fríverslunarviðræðum þeirra og Indlands á fyrri hluta næsta árs. Jafnframt var farið yfir stöðuna í viðræðum EFTA-ríkjanna og Indónesíu, Bosníu og tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan.

Staðan í Doha-samningaviðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var einnig rædd á fundinum og lýstu þátttakendur þungum áhyggjum af þeim rýra árangri sem náðst hefur í viðræðunum að undanförnu.  

Einnig var haldinn fundur ráðherra EFTA-ríkjanna með þingmannanefnd EFTA, þar sem einkum var farið yfir stöðuna í fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna.

Á fundinum var ennfremur tekin ákvörðun um skipun Kristins F. Árnasonar, sendiherra og fastafulltrúa Íslands í Genf, í stöðu framkvæmdastjóra EFTA frá og með 1. september 2012. Einnig var Ivo Kaufmann frá Sviss skipaður í stöðu varaframkvæmdastjóra með aðsetur í Genf og Georges Baur frá Liechtenstein skipaður í stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra með aðsetur í Brussel.

Mynd: © EFTA Secretariat, 2011


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum