Hoppa yfir valmynd
8. september 2011 Utanríkisráðuneytið

Íslensk bókmenntahátíð opnuð í Nýju Delí í dag

IMG_3971-2
IMG_3971-2

Íslensk bókmenntahátíð var opnuð í Nýju Delí í dag, “A Celebration of Icelandic Literature”.   Staða Íslendinga sem bókaþjóðar er í brennidepli um þessar mundir en Ísland verður heiðursgestur á stærstu bókasýningu heims, Bókamessunni í Frankfurt í október nk.  Í ágúst sl. var Reykjavíkurborg svo útnefnd bókmenntaborg UNESCO.  Hátíðin er liður í viðleitni sendiráðs Íslands í Nýju Delí, utanríkisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins að fylgja eftir og efla áhuga á íslenskum bókmenntun á Indlandi og stendur til 17. september.  

Á bókmenntahátíðinni verður sýningin Sögueyja: portrett af íslenskum samtímahöfunum í aðalhlutverki en hún byggir á veggspjöldum ljósmynda Kristins Ingvarssonar ljósmyndara af á þriðja tug íslenskra rithöfunda og viðtölum Péturs Blöndal blaðamanns við þá um hvað í íslenskum söguarfi hafi helst haft áhrif á listsköpun þeirra.  Einnig sýnir Guðjón Bjarnason arkitekt og myndlistamaður verk sín undir yfirskriftinni CognITive FluIDity en á sýningu hans eru 28 grátóna málverk auk bókverka og  skúlptúrsinnsetningar sem er unnin úr pappírsstrendingum. Verk Guðjóns fjalla um óheft flæði, eðli og inntak sköpunar ímyndarinnar og hugmyndatenginga og eiga því margt skylt við frjálsan hugarheim ritlistarinnar.  Á fjórða tug þýðinga íslenskra bóka á ensku liggja frammi á sýningarstað.  Á meðan á sýningunni stendur verða sýnd stutt viðtöl við íslenska rithöfunda og aðra sem að íslenskum bókmenntum koma.

Þá verða umræður um hið nýja form glæpasagna á Norðurlöndum og á Indlandi en norrænir sendiherrar í Nýju Delí munu lesa upp úr uppáhaldsbókum sínum. Umræðunum stjórnar V.K. Karthika útgáfustjóri HarperCollins á Indlandi.

Hátíðin er haldin í samráði við sendiráð Þýskalands, Goethe-Institut og þýsku bókmenntastofnunina “German Book Office”.

Sendiráðið í Nýju Delí veitir nánari upplýsingar sé þess óskað [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum