Hoppa yfir valmynd
6. september 2011 Utanríkisráðuneytið

Norðurslóðir, Ísland og Grænland

Grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag um samstarf Íslendinga og Grænlendinga á norðurlsóðum í tilefni heimsóknar Kuupik Kleist, formanns grænlensku landsstjórnarinnar.


Eftir Össur Skarphéðinsson

Í nýrri stefnu Íslands um norðurslóðir, sem Alþingi samþykkti samhljóða að tillögu minni á sl. vetri var sérstök áhersla lögð á Grænland sem samstarfsríki á norðurslóðum. Í grænlensku stefnunni, sem birt var fyrir nokkrum vikum, er Íslandi lýst sem einu af fjórum mikilvægustu samstarfsþjóðum Grænlendinga í málefnum norðurslóða. Hin eru Bandaríkin, Kanada og Noregur. Milli þessara tveggja vinaþjóða ríkir því mikill og gagnkvæmur vilji til að efla samstarf sitt um verndun og nýtingu norðurslóða. Í þessu felast mikil tækifæri fyrir Ísland og Grænland, og miklir gagnkvæmir hagsmunir liggja í því að efla samstarf þjóðanna á öllum sviðum. Opinber heimsókn Kuupik Kleist, forsætisráðherra Grænlands, sem nú stendur yfir, er því af beggja hálfu hluti af opinberri stefnu þjóðanna um nánara samstarf.

Verndun og nýting norðursins

Bæði ríkin áforma vinnslu olíu og gass innan heimskautsbaugs. Drög eru þegar lögð að olíuborunum fyrir Austur-Grænlandi þar sem bandarískar rannsóknarstofnanir telja verulegar olíubirgðir undir hafsbotni. Íslendingar munu síðar á þessu ári opna tilboð í rannsóknarboranir á Drekasvæðinu, og stefna jafnframt að því að verða mikilvæg þjónustumiðstöð jafnt fyrir norðursiglingar framtíðarinnar sem nýtingu auðlinda í norðurhöfum. Bæði ríkin leggja áherslu á að efla samvinnu við Norðmenn, sem eru leiðandi á sviði rannsókna á norðurslóðum, og hafa nýlega áréttað áform sín um olíuvinnslu á Jan Mayen-svæðinu.

Í norðrinu eru því tækifæri til vaxtar í framtíðinni vissulega fyrir hendi. Hins vegar er afar brýnt að nálgast þau með varúð og rasa ekki um ráð fram. Stóróhöpp á sviði olíuvinnslu eða flutninga á olíu og öðrum varningi með risaskipum gætu haft geigvænlegar afleiðingar fyrir norðurskautsríki eins og Ísland og Grænland. Fyrsta formlega stefnumótun Íslands um norðurslóðir, sem núverandi ríkisstjórn beitti sér fyrir fyrr á árinu, tekur sterkt mið af þessum veruleika. Þar er sérstök áhersla lögð á að efla alþjóðlegt samstarf til að koma í veg fyrir og verjast afleiðingum óhappa sem í framtíðinni kunna að tengjast nýtingu á norðurslóðum. Þar geta Grænland og Ísland gegnt veigamiklu hlutverki. Bæði ríkin hafa einsett sér að eiga sem ríkast samstarf um skynsamlega og varúðarfulla nálgun gagnvart auðlindum á norðurslóðum.

Árangursrík samvinna

Núverandi ríkisstjórn hefur lagt mikla áherslu á að efla og þétta samskiptin við Grænland á öllum sviðum. Ferðalög og fundir okkar fjármálaráðherra með Grænlendingum síðustu tvö ár hafa þjónað þeim tilgangi. Samvinna þjóðanna er báðum til hagsbóta. Íslendingar hafa veitt Grænlendingum mikilvæga þjónustu á margvíslegum sviðum heilbrigðismála, m.a. er samningur um bráðaþjónustu milli landanna og um reglulegar læknisheimsóknir. Samstarfið innan heilbrigðisgeirans er nú í góðum vexti. Grænland hefur á hinn bóginn veitt Íslendingum kærkomin tækifæri á sviði mannvirkjagerðar, ekki síst í byggingu virkjana, sem hefur verið okkur velkomin búbót á tímum erfiðleika.

Miklir og gagnkvæmir hagsmunir eru líka á sviði samgangna. Með stórauknum umsvifum á Grænlandi hafa flugsamgöngur aukist verulega. Flugfélag Íslands flýgur nú reglulega allt árið um kring til Nuuk, og yfir ferðamannatímann til alls fimm staða á Grænlandi. Air Greenland hefur einnig flogið tvisvar í viku til Íslands, og á nú hlut í norðlenska flugfélaginu Nordland Air, sem sinnir margvíslegri flugþjónustu til Grænlands. Í skoðun er jafnframt að taka upp vöruflutninga frá Íslandi til byggðarlaga á Austur-Grænlandi sem erfitt er að þjónusta frá vesturströnd Grænlands.

Íslendingar hafa líka verið Grænlendingum liðsauki í baráttu gegn viðleitni Evrópusambandsins til að takmarka innflutningi handverks úr selskinni enda selveiðar ævaforn partur af menningu Grænlendinga.

Ný tækifæri

Íslendingar hafa áhuga á að taka upp samstarf við Grænland á tveimur nýjum sviðum sem tengjast nýtingu auðlinda á norðurslóðum. Vinnsla olíu og gass út af norðurhluta Austur- Grænlands er á næstu grösum. Hún kallar á mikla og margvíslega þjónustustarfsemi. Á austurströndinni eru byggðir hins vegar strjálar og örfámennar, og engar svo norðarlega. Heppilegustu þjónustuhafnirnar eru því á Íslandi. Samvinna við Grænlendinga um íslenska þjónustu við olíuvinnslusvæðin við Austur-Grænland yrði báðum þjóðum til mikilla hagsbóta.

Ég hef sömuleiðis rætt við grænlenska ráðamenn hugmyndir sem ég hef kynnt hér heima í ræðu og riti á síðustu árum um annan orkutengdan möguleika, sem gæti skapað Grænlendingum mikil verðmæti. Á austurströndinni fellur mikið jökulvatn sjávar, og fyrirsjáanlegt að svo verði næstu þúsund árin. Mikil tækifæri liggja í því að nýta íslenska verktækni og reynslu til að beisla orku einhverra þeirra til raforkuframleiðslu. Langskynsamlegast væri að flytja þá orku um sæstreng til Íslands og þaðan áfram til Evrópu, þar sem endurnýjanleg orka er mjög eftirsótt, og hækkar stöðugt í verði. Í þessu gætu falist í framtíðinni fyrir Grænlendinga mikil verðmæti sem yrðu þeim lyftistöng í sjálfstæðisbaráttunni.

Einn angi af þessari orkusamvinnu gæti falist í afleggjara til Færeyja, sem Evrópustrengurinn lægi hvort sem er framhjá. Þannig gæti samvinna Íslands og Grænlands séð Færeyjum fyrir allri þeirri endurnýjanlegu orku sem þeir þurfa á að halda. Samvinna á orkusviði gæti því orðið nýr burðarás í samstarfi Grænlands, Íslands og Færeyja í framtíðinni.

Höfundur er utanríkisráðherra.


Grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu 6. september 2011 (pdf).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum