Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2011 Utanríkisráðuneytið

Samstaða smáríkja

OS-og-Bildt-og-AA
OS-og-Bildt-og-AA

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók í morgun þátt í pallborðsumræðum á vegum alþjóðamálastofnunar Eistlands og utanríkisráðuneytis Eistlands í tilefni af 20 ára afmæli endurheimts sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna. Í máli sínu lagði ráðherra m.a. áherslu á að það hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Smáríki verða að standa saman, sagði hann, og bætti við að það væri ekki rétt að einungis hagsmunir réðu gangi alþjóðamála. Ríki yrðu ávallt að virða grunngildi sín og taka ákvarðanir út frá þeim.  

Umræðurnar voru tvískiptar. Í fyrra pallborði ræddu fyrrum forystumenn í stjórnmálum, þ. á m. Jón Baldvin Hannibalsson fyrrum utanríkisráðherra, um lærdóma fortíðarinnar. Í hinu síðara ræddu utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um framtíðaráskoranir en þátttakendur auk utanríkisráðherra voru Audronius Azubalis frá Litháen, Carl Bildt frá Svíþjóð, Lene Espersen frá Danmörku, Girts Valdis Kristovskis frá Lettland, Erkki Tuomioja frá Finnlandi og gestgjafinn Urmas Paet frá Eistlandi.

Á morgun sunnudag verður haldinn hátíðlegur sérstakur Íslandsdagur í Tallin til að heiðra þátt Íslands í því þegar Eistland endurheimti sjálfstæði sitt fyrir 20 árum. Fjöldi íslenskra tónlistarmanna mun koma fram, fram fer matarkynning með íslenskum mat og opnaðar verða sýningar á sviði íslenska bókmennta, hönnunar og ljósmynda. Forseti Íslands mun setja Íslandsdaginn með hátíðarræðu á miðnætti í kvöld.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum