Hoppa yfir valmynd
15. júní 2011 Utanríkisráðuneytið

Rýnifundi um samgöngumál lokið

Rýnifundi um samgöngumál sem er innihald 14. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, lauk í Brussel 9. júní sl. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla, en hann fellur undir EES-samninginn. Fyrir íslenska hópnum fór Harald Aspelund, formaður samningahópsins.

Löggjöf Evrópusambandsins á sviði samgangna er umfangsmikil og nær til allra helstu greina sem veita þjónustu í samgöngum, þ.e. á sjó, á vegum, í flugi, með járnbrautarlestum og á skipgengum vatnaleiðum. Markmiðið er gera hinn sameiginlega innri markað ESB-ríkjanna virkari með áherslu á sjálfbæra, örugga, hagkvæma, umhverfis- og notendavæna þjónustu í samgöngum. Löggjöf ESB á þessu sviði hefur nánast undantekningarlaust verið tekin upp í EES samninginn og innleidd í íslenskan rétt.

Ísland hefur fengið nokkrar undanþágur á grundvelli EES-samningsins, m.a. á sviði flugverndar og varðandi aksturs- og hvíldartíma ökumanna, sem samningahópurinn telur rétt að halda komi til aðildar. Á rýnifundinum vöktu fulltrúar Íslands jafnframt athygli á nokkrum gerðum sem ekki hafa enn verið teknar upp í EES-samninginn en krefjast aðlögunar eða sérlausna hvað Ísland varðar, m.a. með vísan til landfræðilegra aðstæðna. Þetta á m.a. við um sameiginlegar reglur um flugrekstur á svæði Evrópusambandsins, þar sem Ísland leggur áherslu á að verða skilgreint sem jaðarsvæði þannig að heimilt verði að styrkja flug á leiðum sem ekki bera sig á markaðsforsendum í allt að fimm ár í einu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum