Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2011 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ræðir jarðhitamál í Kasmír

OS-i-Kasmir
OS-i-Kasmir

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í gær fund  í borginni Jammu með Omar Abdullah, forsætisráðherra Kasmír, og innanríkisráðherranum, Nasir Aslam Wani, um þróun á samstarfi íslenskra og indverskra fyrirtækja um nýtingu jarðhita. Mikill áhugi er á slíku samstarfi af hálfu yfirvalda í Kasmír en þar er að finna möguleika á að virkja jarðhita til raforkuframleiðslu. Samvinna er þegar hafin á milli indverskra og íslenskra fyrirtækja um verkefni í héraðinu.

Kasmír byggir atvinnulíf sitt að verulegu leyti á ferðaþjónustu í tengslum við annálaða náttúrufegurð Himalayafjalla og Kasmír-dalsins og á fundinum fór utanríkisráðherra yfir margvíslega nýja möguleika sem gætu opnast með tengslum ferðaþjónustu og jarðhitavinnslu. Vísaði hann sérstaklega til frumkvöðlastarfs Bláa Lónssins í því sambandi. Utanríkisráðherra heimsótti bæinn Leh í Labakh-héraði í Kasmír, þar sem umtalsverðan jarðhita er að finna.

Í gærkvöld og í dag átti utanrráðherra svo fundi með dr. Faruk Abdullah, ráðherra endurnýjanlegrar orku í ríkisstjórn Indlands í borginni Srinagar. Rætt var ítarlega um samstaf Íslendinga og Indverja á sviði jarðhita og indverski ráðherrann lýsti sérstaklega verkefnum á því sviði í Kasmír sem hann óskaði eftir að Íslendingar kæmu að.  Á fundunum ræddu ráðherrarnir ennfremur aðkomu íslenskra fyrirtækja að gerð lítilla vatnaflsvirkjana hátt í fjöllum og dr. Abdullah  lýsti vilja sínum til þess að íslensk fyriræki kæmu að ráðgjöf og eftirliti við byggingu stórra vatnsaflsvirkjana sem indversk stjórnvöld  hafa ákveðið að ráðast í við rætur Himalaya-fjalla.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum