Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2011 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með S.M. Krishna í Nýju-Delí

OS-og-SMK-minni
OS-og-SMK-minni

Á fundi í Nýju-Delí fyrr í dag með S.M. Krishna, utanríkisráðherra Indlands, óskaði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra formlega eftir því að Indverjar styddu áfram framgang efnahagsáætlunar Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann þakkaði jafnframt hversu vel Indverjar hefðu brugðist við óskum íslensku ríkisstjórnarinnar um liðsinni þegar langar tafir urðu á afgreiðslu áætlunarinnar á fyrri stigum Icesave-málsins..

Ráðherrarnir fögnuðu umtalsverðri aukningu í viðskiptum milli ríkjanna og ræddu leiðir til að efla þau enn frekar, m.a. með því að flýta gerð fríverslunarsamnings milli Indlands og EFTA-ríkjanna. Utanríkisráðherra Indlands óskaði eftir frekara samstarfi við Íslendinga á sviði sjávarútvegs og nefndi sérstaklega uppbyggingu fiskimjölsverksmiðja á sjávarútvegssvæðum Indlands og tækni varðandi pökkun og merkingu fiskafurða. Ráðherrarnir bundust fastmælum um að næsta skrefið í frekari samvinnu á sviði sjávarútvegs yrði að indversk stjórnvöld myndu senda indverska sérfræðinga til náms við sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Utanríkisráðherra lýsti stöðu samstarfs þjóðanna á sviði jarðhita, en samningar um fyrsta samstarfsverkefni íslenskra og indverskra fyrirtækja, sem varðar gerð lítillar jarðvarmavirkjunar, eru á lokastigi. Ráðherra óskaði eftir samstarfi við indversk stjórnvöld um að byggja fleiri slíkar virkjanir, og bauð fram aðstoð Íslendinga við að þróa orkustefnu um jarðvarma á Indlandi. Talið er að nýtanlegur jarðhiti finnist á um 340 stöðum á Indlandi og mögulegt sé að virkja frá 1000 MW upp í allt að 10 þúsund MW.

Þá greindi utanríkisráðherra frá samstarfsverkefnum Indlands og Íslands um hönnun og gerð lítilla vatnsaflsvirkjana ofar snjólínu í fjallahéruðum norður-Indlands, og voru ráðherrarnir sammála um mikilvægi þess að nýta íslenska þekkingu á því sviði til að bæta lífskjör íbúa. Ráðherrarnir ræddu jafnframt stórhuga fyrirætlanir Indverja um virkjun sólarorku, og greindi utanríkisráðherra frá áhuga indverskra fjárfesta á að framleiða kísilflögur og búnað í sólarvirkjanir með endurnýjanlegri orku á Íslandi.

Í framhaldi af því ræddu ráðherrarnarnir samstarf Íslands og Indlands í alþjóðamálum og skiptust á skoðunum um stöðu mála í Norður-Afríku, Afganistan og Palestínu, og ræddu samskipti Indlands við grannríki sín, sem og stöðu Íslands og horfur á norðurslóðum.

Fyrr í dag lagði utanríkisráðherra blómsveig að minnismerki um Mahatma Gandhi, og heimsótti síðan heimili Gandhis þar sem hann var ráðinn af dögum, en það er nú safn í minningu sjálfstæðishetju Indverja. Í gær átti hann fund með umhverfisráðherra Indlands Jairam Ramesh þar sem m.a. rætt var um horfur í loftslagsviðræðum SÞ og tækifæri Indlands í nýtingu jarðhita. Síðdegis í gær hitti ráðherra Subodh Kant Sahay ráðherra ferðamála í ríkisstjórn Indlands og ræddu þeir áætlanir um hvernig auka má straum ferðamanna frá Indlandi til Íslands, en með vaxandi velmegun á Indlandi er búist við verulegri aukningu ferðamanna þaðan til annarra landa. Lýsti indverski ráðherrann einlægum áhuga sínum á að styðja við frekara samstarf íslenskra og indverskra ferðaþjónustufyrirtækja og fagnaði þátttöku íslenskra fyrirtækja á í stærstu ferðakaupstefnu Indlands sem fram fór í janúar sl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum