Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2011 Utanríkisráðuneytið

Meint brot á mannréttindum í Hvíta-Rússlandi verði rannsökuð

Fjórtán aðildarríki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, Ísland þeirra á meðal, tilkynntu í gær að þau hygðust senda nefnd óháðra sérfræðinga til Hvíta-Rússlands til að rannsaka viðbrögð þarlendra yfirvalda við mótmælum sem urðu í kjölfar forsetakosninga þar í desember sl. Hundruð manna voru handtekin og margir dæmdir til fangavistar og hafa fjölmörg alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök gagnrýnt hversu harkalega mótmælin voru brotin á bak aftur.

ÖSE-ríkin fjórtán virkjuðu með þessu svokallað Moskvu-ferli, sem kveður á um að aðildarríki geta sent sendinefndir til að rannsaka meint brot, t.d. á mannréttindum í einstökum aðildarríkjum, aðstoða viðkomandi ríki við að greina vanda sinn og leggja til úrbætur.

Á meðal þess sem ríkin vilja að sé skoðað eru ásakanir um brot á tjáningarfrelsi, félagafrelsi og fundafrelsi og fullyrðingar um ómannúðlega meðferð fanga. Erfitt hefur reynst að afla upplýsinga um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi eftir að þarlend yfirvöld neituðu að framlengja starfsleyfi sendinefndar ÖSE í landinu um síðustu áramót.

Moskvu-ferlinu hefur verið beitt fimm sinnum; gagnvart Króatíu og Bosníu og Herzegóvínu 1992, Eistlandi 1992, Moldóvu 1993, Serbíu 1993 og síðast árið 2002 gagnvart Túrkmenistan. Ríkin fjórtán sem að því standa nú eru Bandaríkin, Bretland, Danmörk, Finnland, Holland, Ísland, Kanada, Noregur, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Svíþjóð, Tékkland og Þýskaland.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum