Hoppa yfir valmynd
16. mars 2011 Utanríkisráðuneytið

Sýningaropnun og bókarútgáfa í Berlín

Ausstellung-008-(Medium)
Ausstellung-008-(Medium)

„Sögueyjan Ísland – Portrett af íslenskum samtímahöfundum“ er yfirskrift sýningar sem opnaði í gærkvöldi í Felleshus, sameiginlegum sýningarsal norrænu sendiráðanna í Berlín.

Sýningin er byggð á ljósmyndum Kristins Ingvarssonar og viðtölum Péturs Blöndal við íslenska samtímahöfunda um það hvernig þeir nálgast sagnaarfinn í víðustu merkingu þess orðs. Matthias Wagner K. er sýningarstjóri en að sýningunni standa sendiráð Íslands í Berlín og Sögueyjan, sem skipuleggur heiðursþátttöku  Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt í haust.

Við opnunina las Gyrðir Elíasson upp úr skáldsögu sinni Gangandi íkorna en hún kom út í gær hjá þýska bókaforlaginu Walde + Graf. Þýski leikarinn Thomas Sarbacher las úr þýsku þýðingunni sem ber titilinn „Ein Eighhörnchen auf Wanderschaft”.

Gyrðir er einn  höfundanna sem fjallað er um í sýningunni en aðrir eru: Andri Snær Magnason, Arnaldur Indriðason, Auður Jónsdóttir, Bragi Ólafsson, Einar Kárason, Einar Már Guðmundsson, Gerður Kristný, Guðrún Eva Mínervudóttir, Guðrún Helgadóttir, Hallgrímur Helgason, Hannes Pétursson, Jón Kalman Stefánsson, Kristín Marja Baldursdóttir, Kristín Steinsdóttir, Matthías Johannessen, Ólafur Jóhann Ólafsson, Sigurður Guðmundsson, Sjón, Steinunn Sigurðardóttir, Vigdís Grímsdóttir og Yrsa Sigurðardóttir. Pétur Blöndal og Kristinn Ingvarsson völdu höfundana.

Fyrirhugað er að sýningin verði haldin á nokkrum stöðum á hinu þýskumælandi svæði á þessu ári og að í framhaldinu nýtist hún áfram til kynningar í Þýskalandi. Þá er í deiglunni að láta þýða sýninguna á fleiri tungumál og gefa sendiráðum um allan heim kost á að nýta hana við kynningu á íslensku bókaþjóðinni tengt heiðursþátttökunni í Frakfurt í haust. Mikill áhugi er í Bandaríkjunum og er mögulegt að hún verði sett upp í samstarfi við Scandinavia House í New York á þessu ári. Þá hafa mörg sendiráð þ.á.m. sendiráð Íslands í Brussel, París og Danmörku lýst áhuga á að fá sýninguna.

Sýningin er styrkt af utanríkisráðuneytinu, Actavis og mennta- og menningarmálaráðuneytinu, en að auki hafa Sögueyjan og sendiráðið í Berlín lagt fram ómælda vinnu við undirbúning.

Nánari upplýsingar veita Ólöf Hrefna Kristjánsdóttir hjá sendiráði Íslands í Berlín og Auður Edda Jökulsdóttir hjá utanríkisráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum