Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2011 Utanríkisráðuneytið

Íslensk stjórnvöld styðja aðgerðir og ályktanir Sameinuðu þjóðanna gagnvart Líbíu

Íslensk stjórnvöld taka undir harðorða ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var um helgina þar sem valdbeiting og mannréttindabrot stjórnvalda í Líbíu eru fordæmd, vopnasölubann sett á landið, svo og ákvæði um ferðabann og frystingu eigna Muammars Gaddafis, einræðisherra Líbíu í 42 ár. Sakamáladómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag var ennfremur falið að rannsaka árásir öryggissveita Gaddafis á íbúa landsins og ákvarða hvort þeir sem bera ábyrgð á morðum öryggissveitanna og öðrum mannréttindabrotum verði sóttir til saka.

Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, fordæmdi í liðinni viku harkalega framferði líbískra stjórnvalda gagnvart óbreyttum borgurum. Íslensk stjórnvöld hafa fylgt þessari fordæmingu eftir, m.a. með stuðningi við ályktun öryggisráðsins. Í utanríkisráðuneytinu er nú þegar hafin vinna að innleiðingu ályktunar öryggisráðsins hér á landi.

Ísland var einnig eitt þeirra ríkja sem fór fram á sérstakan fund í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf um ástandið í Líbíu og sem stóð að ályktun í mannréttindaráðinu sl. föstudag þar sem mannréttindabrot líbískra stjórnvalda eru fordæmd harðlega. Í ályktuninni eru brotin sögð vera á mörkum þess að vera glæpir gegn mannkyni og þrýst á líbísk stjórnvöld að stöðva þegar í stað frekari mannréttindabrot.  Þau eru einnig hvött  til að tryggja ferðafrelsi almennra borgara, þ.m.t. ríkisborgara annarra ríkja, opna fyrir internet- og símaaðgang, hætta hótunum, ofsóknum og handtökum á almennum borgurum án dóms og laga.

Mannréttindaráðið samþykkti að senda sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka öll meint brot á alþjóðlegri mannréttindalöggjöf í Líbíu. Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna var ennfremur falið að skila mannréttindaráðinu munnlegri skýrslu um ástand mannréttindamála í Líbíu á fundi ráðsins, sem hefst í dag í Genf.  Þá leggur mannréttindaráðið það til í lokamálsgrein ályktunarinnar að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hugleiði að gera Líbíu brottrækt úr mannréttindaráðinu.

Íslensk stjórnvöld hafa ennfremur tekið undir ákall Evrópusambandsins sl. fimmtudag um að þegar verði bundinn endi á ofbeldi gegn óbreyttum borgurum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum