Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2010 Utanríkisráðuneytið

Fyrsta rýnifundinum lokið

Rynivinna_hefst_Brussel
Rynivinna_hefst_Brussel

Rýnifundi um 5. kafla löggjafar ESB, Opinber útboð, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem hófst í morgun, báru sérfræðingar Íslands og Evrópusambandsins saman löggjöf í þessum samningskafla en í honum er að finna reglur um gagnsæi, frjálsa samkeppni og samræmingu reglna um gerð samninga á vegum opinberra aðila. Á fundinum var rætt um framkvæmd reglnanna hérlendis en 5. kafli er hluti af EES-samningnum og hefur Ísland þegar tekið upp löggjöf á þessu sviði að fullu leyti. Reglur um opinber innkaup yrðu hinar sömu og nú, verði aðild að Evrópusambandinu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Greinargerð samningahópsins sem fjallar um  opinber útboð (EES I) hefur verið birt á heimasíðunni esb.utn.is  en í henni er að finna nánari útlistun á viðfangsefni kaflans.

* * *

Löggjöf Evrópusambandsins skiptist í alls 33 kafla, auk kafla um stofnanir og önnur mál. Áður en eiginlegar samningaviðræður hefjast um einstaka kafla fer fram rýnivinna þar sem löggjöf Íslands og ESB er borin saman til að greina hvar íslensk löggjöf er frábrugðin og hvað semja þarf um. Tveir rýnifundir munu fara fram um flesta samningskafla. Á þeim fyrri kynnir framkvæmdastjórnin löggjöf ESB og á þeim síðari kynnir Ísland sína löggjöf. Í þeim köflum sem falla undir EES-samninginn og þar sem regluverkið hefur að öllu leyti verið tekið upp af Íslands hálfu, verður aðeins um einn fund að ræða.

Utanríkisráðuneytið birti á heimasíðu sinni hinn 20. október sl. tímaáætlun fyrir rýnivinnu komandi vetrar en henni lýkur í júní á næsta ári. Upplýsingar um viðfangsefni samningskafla, um samninganefnd Íslands og um skipulag viðræðnanna er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um samningaviðræður Íslands og ESB á esb.utn.is.

Sjá tímaáætlun vegna rýnivinnu (pdf)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum