Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2010 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs í Slóvakíu

 

Þann 20. apríl afhenti Stefán Skjaldarson, sendiherra, Ivan Gasparovic, forseta Slóvakíu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Slóvakíu, með aðsetur í Vín.

Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Bratislava. Að athöfn lokinni ræddu forseti Slóvakíu og sendiherra stuttlega saman. Í samtalinu kom fram mikill hlýhugur í garð Íslands, en Ísland var meðal fyrstu ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Slóvakíu árið 1993. Aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu bar einnig á góma og sagði forsetinn Slóvaka reiðubúna að miðla bæði af reynslu sinni af aðildarviðræðum og aðild að Evrópusambandinu. Í máli forseta kom einnig fram áhugi á að efla enn frekar viðskiptatengsl ríkjanna og nefndi hann sérstaklega nýtingu jarðhita í því sambandi.

Sendiherra átti einnig fundi með embættismönnum í utanríkisráðuneyti Slóvakíu í tengslum við afhendingu trúnaðarbréfsins. Gafst þar tækifæri til að fara yfir mikilvæg mál á borð við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, helstu niðurstöður í skýrslu rannsónanefndar Alþingis um bankahrunið, endurskoðun stuðningsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland og stöðu mála varðandi eldgosið í Eyjafjallajökli.

Fremur lítil viðskipti eru skráð milli Slóvakíu og Íslands, en jarðhitasamstarf við Sóvakíu hefur verið talsvert síðastliðin 20 ár og fer vaxandi. Þá hefur m.a. Marel starfsemi með höndum í Slóvakíu.

Auk Austurríkis fer sendiráð Íslands í Vín með fyrrisvar gagnvart nokkrum nágrannaríkjum í Mið-Evrópu og á Balkanskaga, þ.e. Tékklandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Slóveníu, Bosníu og Hersegóvínu og Makedóníu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum