Hoppa yfir valmynd
18. mars 2010 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs í Ungverjaverjalandi

Stefán Skjaldarson, sendiherra, afhenti í gær László Sólyom, forseta Ungverjalands, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Ungverjalandi, með aðsetur í Vín.

Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Búdapest. Að athöfninni lokinni ræddu sendiherra og forseti Ungverjalands stuttlega saman. Forsetinn lýsti ánægju sinni með umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Ísland væri rótgróið evrópskt lýðræðisríki og umsókn þess um aðild bæri að skoða á eigin verðleikum án tengsla við óskyld mál. Ungverjar taka við formennsku í Evrópusambandinu þann 1. janúar 2011. Forsetinn lýsti jafnframt áhuga á nánara samstarfi við Ísland um nýtingu jarðhita og þakkaði fyrir þann efnahagslega stuðning sem Ísland hefur veitt gegnum uppbyggingasjóði EES.

Sendiherra átti einnig fundi með embættismönnum í utanríkisráðuneyti Ungverjalands þar sem einkum var fjallað um Evrópumál og tvíhliða samskipti ríkjanna. Í þeim samtölum var staðfest að samskipti ríkjanna eru afar góð þótt ekki séu þau umfangsmikil. Þá gafst einnig tækifæri fyrir sendiherra til að skýra út stöðu mála varðandi umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og stöðu efnahagsmála á Íslandi, ekki síst með tilliti til Icesave.

Lítil viðskipti eru skráð á milli landanna en samstarf á sviði jarðhita hefur farið vaxandi undanfarin 3 ár. Íslenskar verksfræðistofur vinna jarðhitarannsóknir og boranir í samstarfi við bæði opinbera aðila og einkaaðila í Ungverjalandi. Einnig stunda fjölmargir Íslendingar nám í Ungverjalandi, einkum í læknisfræði.

Auk Austurríkis og Ungverjalands, fer sendiráð Íslands í Vín með fyrirsvar gagnvart nokkrum nágrannaríkjum í Mið-Evrópu og á Balkanskaga, Tékklandi, Slóvakíu, Slóveníu, Bosníu og Hersegóvínu og Makedóníu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum