Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2010 Utanríkisráðuneytið

Framkvæmdastjórn ESB mælir með því að hafnar verði aðildarviðræður við Ísland

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) gaf í dag út álit um aðildarumsókn Íslands að ESB. Í álitinu kemst framkvæmdastjórnin að þeirri niðurstöðu að Ísland fullnægi öllum skilyrðum sem umsóknarríki og leggur til að hafnar verði aðildarviðræður við Ísland.

Ísland fær góða einkunn sem umsóknarríki. Í álitinu kemur fram að Ísland sé rótgróið lýðræðisríki með styrkar stofnanir og markaðshagkerfi sem hafi um áratugaskeið tekið virkan þátt í Evrópusamvinnunni í gegnum aðild sína að EFTA og EES. Framkvæmdastjórnin segir í áliti sínu að aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að endurreisa íslenskt efnahagslíf séu farnar að skila árangri þó fullum stöðugleika í efnahagsmálum sé ekki náð. Áfram þurfi að draga úr skuldum og innleiða umbætur og hert eftirlit með starfsemi banka og fjármálafyrirtækja. Eins segir í álitinu að efla beri sjálfstæði íslenskra dómstóla og styrkja þurfi reglur til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra milli hins opinbera og viðskiptalífsins.

Í álitinu kemur fram að Ísland sé vel á vegi statt að því er varðar framkvæmd regluverks ESB á þeim sviðum sem falla undir EES og Schengensamningana. Að því er varðar þau svið sem ekki falla undir EES og Schengen, svo sem sjávarútveg, landbúnað, hluta löggjafar um umhverfismál og fjárhagsmálefni, er vikið að nauðsyn þess að Ísland lagi löggjöf sína að reglum ESB. Það mun verða meginviðfangsefni fyrirhugaðra samningaviðræðna Íslands og ESB. Í álitinu kemur einnig skýrt fram að íslenska verði eitt af opinberum tungumálum ESB.

Ákvörðun um að hefja aðildarviðræður við Ísland er nú í höndum ráðherraráðs ESB. Að neðan er að finna samantekt á helstu atriðum tilkynningar framkvæmdastjórnar ESB til ráðherraráðsins og Evrópuþingsins. Álitið sjálft er að finna á heimasíðu hennar http://ec.europa.eu/enlargement/press_corner/key-documents/opinion-iceland_2010_en.htm

* * *

Helstu atriði í tilkynningu ESB til ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins (Communication from the Commission to the European Parliament and the Council)

· Ísland uppfyllir stjórnmálaleg og efnahagsleg skilyrði aðildar að ESB og framkvæmdastjórn ESB mælir með því að hafnar verði aðildarviðræður við Ísland.

· Ísland er í stakk búið til að taka á sig þær skyldur sem fylgja því að innleiða og framkvæma reglur ESB, einkum á sviði EES.

· Frammistaða Íslands varðandi innleiðingu EES löggjafar er almennt góð og stenst samanburð við önnur ríki ESB og EFTA. Á einstökum sviðum þarf þó að gera betur s.s. á sviði fjármálaþjónustu, matvælaöryggis og hvað varðar frjálsa fjármagnsflutninga.

· Tekið er fram að Ísland starfi náið með aðildarríkjum ESB að framkvæmd Schengensamningsins.

· Framkvæmdastjórnin tiltekur eftirtalin svið þar sem hún telur að Ísland þurfi að laga löggjöf sína að löggjöf ESB: Sjávarútvegur, landbúnaður, umhverfismál, frjáls för fjármagns, fjármálaþjónusta, tollabandalag, skattamál, tölfræði, matvælaöryggi, byggðamál og fjárhagsmál.

· Undirstrikað er að Ísland sé rótgróið lýðræðisríki þar sem þrískipting ríkisvalds er tryggð, stofnanir stöðugar og almenn mannréttindi virt.

· Tekið er fram að sveitafélög séu skilvirk í starfi sínu og að íslensk stjórnsýsla sé almennt afkastamikil og starfi án pólitískra afskipta.

· Íslenskir dómstólar fá góða einkunn og er dómstólakerfið sagt stöðugt. Raunverulegt sjálfstæði dómstóla, einkum ferli við skipun dómara, er hins vegar ákveðið áhyggjuefni að mati framkvæmdastjórnarinnar.

· Tekið er fram að í kjölfar hrunsins hafi vaknað spurningar um hagsmunaárekstra, svo sem náin tengsl milli stjórnmála og viðskipta.. Nefnt er að embætti sérstaks saksóknara hafi verið sett á fót og rannsaki möguleg lögbrot í tengslum við bankahrunið. Framkvæmdastjórnin telur að styrkja þurfi ferla sem draga úr hættu á hagsmunaárekstrum.

· Framkvæmdastjórnin fjallar um bankahrunið á Íslandi í október 2008 í tengslum við hina alþjóðlegu fjármálakreppu og segir hrunið hafa haft verulega neikvæð efnahagsleg og félagsleg áhrif á Íslendinga.

· Frá sumri 2009 hafi íslensk stjórnvöld gripið til mikilvægra aðgerða, s.s. til að vinna bug á fjárlagahalla og tryggja stöðugleika íslensku krónunnar, og ráðist í umbætur á fjármálamarkaði. Árangur þessara aðgerða er farinn að koma í ljós. Á Íslandi er tiltölulega sveigjanlegur vinnumarkaður, ungt vinnuafl og miklar auðlindir til að byggja á.

· Stöðugleika í efnahagsmálum er þó ekki náð að mati framkvæmdastjórnarinnar og er nefnt sérstaklega að aðgerðir til að bæta skuldastöðu séu grundvallaráskorun.

· Framkvæmdastjórnin telur nauðsynlegt að ljúka endurskipulagningu fjármálakerfisins og herða löggjöf og verklag um eftirlit með starfsemi banka og fjármálafyrirtækja.

· Tekið er fram að frekari skipulagsbreytingar og aðgerðir til að auka fjölhæfni íslensks atvinnulífs myndi styrkja samkeppnisstöðu Íslands.

· Þrátt fyrir að efnahagserfiðleikar Íslands hafi haft umtalsverð áhrif á virkni íslenska hagskerfisins er ekki ástæða til að ætla annað en að Ísland geti staðist samkeppni innan ESB innan þriggja ára ef nauðsynlegum umbótum og stefnu er hrint í framkvæmd.

· Framkvæmdastjórnin hefur mælt með því að Ísland fái aðgang að styrkjum til að byggja upp stofnanir og getu til þess að taka þátt í samstarfi innan sambandsins.

· Tekið er fram að aðild Íslands muni hafa takmörkuð heildaráhrif á Evrópusambandið eða getu þess til að viðhalda og dýpka þróun sína.

· Tekið er fram að íslenska verði viðurkennt sem opinbert tungumál ESB.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum