Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2010 Utanríkisráðuneytið

Samningur um Landgræðsluskóla Háskóla SÞ undirritaður

Utanríkisráðuneytið, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðsla ríkisins og Háskóli Sameinuðu þjóðanna hafa undirrritað samning um rekstur Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Landgræðsluskólinn hóf starfsemi árið 2007 sem tilraunaverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskólans og Landgræðslunnar. Skólinn er liður í þróunarsamvinnu Íslands og stendur utanríkisráðuneytið straum af kostnaði við rekstur hans. Aðstoð á þessu sviði er þáttur í framlagi Íslands til þúsaldarmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í umhverfismálum. Markmið skólans er að mennta og þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum í landgræðslu og sjálfbærri nýtingu lands. Meðal þeirra vandamála sem þróunarlönd glíma við er jarðvegseyðing, eyðimerkurmyndun, mengun og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga. Skólinn byggir á sama grunni og Jarðhitaskóli og Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Frá 2007 hafa sautján háskólamenntaðir einstaklingar fengið þjálfun við Landgræðsluskólann og munu sex sérfræðingar hefja nám í apríl nk.

Á Íslandi hefur byggst upp sérfræðiþekking á sviði landgræðslu, allt frá setningu laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands árið 1907. Sandgræðsla Íslands, forveri Landgræðslu ríkisins, hóf þá starfsemi og er hún ein elsta stofnun sinnar tegundar í heiminum. Samningur við Háskóla Sameinuðu þjóðanna felur í sér viðurkenningu á íslensku landgræðslustarfi og mun þátttaka í störfum háskólans styrkja alþjóðasamstarf Íslands á þessu sviði.

Háskóli Sameinuðu þjóðanna var stofnaður árið 1975 og er hlutverk hans að efla fræðistörf, veita ráðgjöf og byggja upp vísinda- og tækniþekkingu sem stuðlar að efnahagslegum og félagslegum framförum í heiminum. Háskólinn samanstendur af neti fjórtán skóla og stofnana vítt og breytt í heiminum. Með stofnun Jarðhitaskólans árið 1978 varð Ísland eitt af fyrstu aðildarlöndum Sameinuðu þjóðanna sem hóf rekstur sérhæfðs skóla og árið 1998 var starfsemin efld enn frekar með stofnun Sjávarútvegsskólans. Frá 1978 hafa yfir 600 vísinda- og tæknimenn frá þróunarlöndum hlotið menntun og þjálfun á vegum skólanna tveggja á Íslandi.

Sjá nánar um starfsemi Landgræðsluskólans á heimasíðu hans http://www.unulrt.is/.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum