Hoppa yfir valmynd
2. desember 2009 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundur ÖSE í Aþenu, 1.-2. desember 2009

Stefán Skjaldarson, fastafulltrúi Íslands gagnvart ÖSE á utanríkisráðherrafundi ÖSE í desember 2009
Stefán Skjaldarson, fastafulltrúi Íslands gagnvart ÖSE á utanríkisráðherrafundi ÖSE í desember 2009

Utanríkisráðherrafundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, fór fram í Aþenu í Grikklandi 1.-2. desember 2009. Í fjarveru utanríkisráðherra ávarpaði Stefán Skjaldarson, fastafulltrúi Íslands gagnvart ÖSE í Vínarborg, fundinn af Íslands hálfu.

Í ræðu Íslands kom fram að ÖSE hefði gegnt mikilvægu hlutverki í þeim umbreytingum sem áttu sér stað í Evrópu í kjölfar falls járntjaldsins. Stofnunin væri mikilvægur vettvangur opinna umræðna þátttökuríkja sem komið hefði skýrt í ljós í yfirstandandi Korfu-ferli um framtíðarskipan öryggismála í Evrópu.

Áhersla var lögð á mikilvægi frjálsra kosninga og kosningaeftirlits ÖSE, meðal annars í ljósi skýrslu ÖSE um þingkosningarnar á Íslandi í apríl sl. Lögð var rík áhersla á mikilvægi aðgerða ÖSE í baráttunni gegn mansali og upplýst um nýlega aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda og fleiri ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að berjast gegn þessari vá. Þá var rætt um takmörkun vígbúnaðar, lausn óleystra deilumála í Evrópu og mikilvægi sendinefnda ÖSE á vettvangi. Ítrekuð var nauðsyn þess að sendinefnd ÖSE í Georgíu hæfi störf að nýju en henni var lokað um mitt ár 2009 þar sem ekki náðist samkomulag um markmið hennar á meðal aðildarþjóða ÖSE.  

ÖSE er stærsta svæðisbundna öryggisstofnun heims. Þátttökuríkin eru 56 í Evrópu, Mið-Asíu og Norður-Ameríku. Stofnunin sinnir fyrirbyggjandi aðgerðum og uppbyggingu í kjölfar átaka. Grikkland gegnir formennsku í ÖSE þetta ár.  Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu samtakanna á vefslóðinni: www.osce.org

Smellið hér til þess að sækja eintak af ræðunni (pdf skjal 46 Kb)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum