Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2009 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs í Tékklandi

Stefán Skjaldarson sendiherra afhenti hinn 11. nóvember dr. Vaclav Klaus, forseta Tékklands, trúnaðarbréf sem sendiherra Íslands gagnvart Tékklandi með aðsetur í Vín.

Að lokinni afhendingu átt sendiherra fund með forsetanum og embættismönnum hans. Staðfest voru afar góð samskipti ríkjanna og ræddir möguleikar á að auka þau og efla, ekki síst á sviði viðskipta og ferðamennsku. Nokkur íslensk fyrirtæki hafa fjárfest í Tékklandi á undanförnum árum, svo sem í lyfjaiðnaði og ferðamennsku. Þá hefur verið talsverð aukning í komu tékkneskra ferðamanna til Íslands undanfarin ár.

Að loknum fundum með forsetanum átti sendiherra fundi með fjölmörgum háttsettum embættismönnum í utanríkisráðuneyti Tékklands. Þar bar helst á góma aðildarumsókn Íslands að ESB, stöðu mála varðandi bankahrunið á Íslandi og efnahagsmál. Staðfestu samtölin vinsamlega afstöðu Tékklands til aðildarumsóknar Íslands og skilning á stöðu Íslands vegna fjármálahrunsins.

Sendiráð Íslands í Vín fer með fyrirsvar Íslands gagnvart Tékklandi, sem og mörgum ríkjum í Mið-Evrópu og á Balkanskaga, gagnvart Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Vín, Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, undirbúningsnefnd samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn o. fl.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum