Hoppa yfir valmynd
14. október 2009 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs í Austurríki

Stefán Skjaldarson afhendir forseta Austurríkis, Dr. Heinz Fischer, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Austurríki.
Stefán Skjaldarson afhendir forseta Austurríkis, Dr. Heinz Fischer, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Austurríki.

Stefán Skjaldarson afhenti hinn 14. október 2009 forseta Austurríkis, Dr. Heinz Fischer, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Austurríki. Athöfnin fór fram í Hofburg sem var áður keisarahöllin í Vín. Umræðuefni á fundinum voru m.a. tvíhliða samskipti Íslands og Austurríkis, aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og alþjóðamál. 

Tvíhliða samskipti Íslands og Austurríkis eru vinsamleg og í góðum farvegi og var það staðfest í samtölum við forsetann.  Fremur lítil skráð vöruviðskipti eru milli Íslands og Austurríkis en margir austurrískir ferðamenn leggja leið sína til Íslands, sem og íslenskir ferðamenn til Austurríkis.  Þá eru samskiptin á menningarsviðinu blómleg og hafa margir íslenskir listamenn hlotið menntun sína í Austurríki.

Á vettvangi alþjóðamála á samstarf sér einkum stað á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins, sem og í alþjóðastofnunum á borð Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, og Sameinuðu þjóðunum. 

Austurríki gegnir afar mikilvægu hlutverki á alþjóðavettvangi og eru höfuðstöðvar margra alþjóðastofnana staðsettar í Vín, s.s. ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, undirbúningsnefnd samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO), o.fl. 

Sendiráð Íslands í Vín fer einnig með fyrirsvar gagnvart mörgum nágrannaríkjum í Mið-Evrópu og á Balkanskaga, en Austurríki á langa samskiptasögu við þessi ríki og er einnig viðskipta- og samskiptamiðstöð við þau.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum