Hoppa yfir valmynd
25. september 2009 Utanríkisráðuneytið

Ísland fær skála á EXPO 2010 afhentan í Sjanghæ

Expó skálinn í Sjanghæ
expo3

Í dag afhentu fulltrúar heimssýningarinnar EXPO 2010 í Sjanghæ skipuleggjendum íslensku þátttökunnar skála Íslands til afnota. Í framhaldi af því hefst vinna við að laga skálann að hönnun Páls Hjaltasonar arkitekts og hönnunarteymis á vegum Plús arkitekta og Saga film.

Heimssýningin 2010 verður sú stærsta og umfangsmesta sem haldin hefur verið en 190 þjóðir og um 50 alþjóðastofnanir taka þátt í henni undir yfirskriftinni “Betri borg, betra líf”. Íslenskt atvinnulíf og fyrirtæki hafa hvatt til þátttöku í heimssýningunni enda er hún einstakur vettvangur til að byggja upp ímynd Íslands og gefa íslenskum fyrirtækjum kost á að kynna sig á alþjóðavettvangi en gert er ráð fyrir að um 70 milljónir gesta hvaðanæva að úr heiminum sæki heimssýninguna.

Áherslur Íslands á sýningunni verða á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, þekkingariðnaðar og ferðamennsku undir yfirskriftinni “Hrein orka, heilbrigt líferni”. Þátttaka Íslands er samstarfsverkefni hins opinbera og fyrirtækja. Heildarkostnaður við verkefnið hefur verið áætlaður 210 m.kr. Íslensk fyrirtæki leggja til þriðjung upphæðarinnar og er enn unnið að frekari þátttöku íslensks atvinnulífs. Þátttaka Íslands á sýningunni er einnig hluti af norrænu samstarfi um sameiginlega kynningu á Norðurlöndunum í Kína.

Á sýningunni munu íslensk orkufyrirtæki í samstarfi við verkfræðistofur kynna nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi og samstarfsverkefni á sviði nýtingar jarðhita víða um heim.

Íslenskir sjónvarps- og kvikmyndagerðarmenn munu kynna framleiðslu sína.

Hönnunarmiðstöð Íslands mun kynna íslenska hönnun og byggingarlist.

Icelandair, Ferðamálastofa, Reykjavíkurborg, Iðnaðarráðuneytið og Útflutningsráð mun vinna saman að því að kynna Ísland sem áfangastað fyrir Kínverja og aðra gesti sýningarinnar. Í dag sækja um 10.000 Kínverjar Ísland heim ár hvert og fyrir liggur að aukin hagsæld í Kína mun fjölga ferðamönnum þaðan á komandi árum.

Útflutningskrifstofa íslenskrar tónlistar mun vinna með tónlistarfólki sem sækir inn á Asíumarkað og mun nýta sýninguna til að koma þeim á framfæri.

Í tengslum við þátttöku Íslands í EXPO hafa margir aðilar lýst áhuga á að kynna sig og starfsemi sína. Má þar nefna tónlistarmenn, myndlistarmenn, íþróttafólk, góðgerðasamtök og fyrirtæki. Þá munu 16 kínverskir íslenskunemar frá Peking háskóla vera í starfsnámi í íslenska skálanum á meðan heimssýningin stendur.

Samhliða mótttöku íslenska skálans var gengið frá samstarfssamningi við Iceland Spring Water. Áður hafa samningar verið undirritaðir við Icelandair og Geysi Green Energy. Aðrir samstarfsaðilar þátttökunar eru Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur.

Hreinn Pálsson, framkvæmdastjóri íslensku þátttökunnar, mun gegna stöðu aðalræðismanns Íslands í Sjanghæ á meðan á undirbúningi og rekstri sýningarinnar stendur.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum