Hoppa yfir valmynd
12. maí 2009 Utanríkisráðuneytið

Breskum þingmönnum gerð grein fyrir viðbrögðum Íslands við skýrslu bresku fjárlaganefndarinnar

Sendiherra Íslands í London hefur, að beiðni Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, sent öllum þingmönnum breska þingsins bréf þar sem brugðist er við skýrslu fjármálanefndar breska þingsins, sem út kom í apríl sl. Alls er um tæplega 1400 bréf að ræða, en þingmennirnir eru 646 í neðri deild og 738 í efri deild. Lokið var við útsendingu bréfanna í síðustu viku.

Í bréfi Sverris Hauks Gunnlaugssonar sendiherra er farið yfir viðbrögð Íslands við skýrslu bresku þingnefndarinnar. Þar kemur fram að íslensk stjórnvöld taki sérstaklega undir með nefndinni að með beitingu bresku hryðjuverkalöggjafarinnar til að frysta eignir Landsbankans 8. október sl. hafi breska ríkistjórnin gerst beinn þátttakandi á markaði í því efnahagslega fárviðri sem þá gekk yfir Ísland, og að ekki sjái enn fyrir enda afleiðinga þess.

Í bréfinu er minnt á hin sterku tengsl sem hafa verið á milli landanna um langt skeið en jafnframt vakin athygli á að núverandi ástand varpi dökkum skugga á þau. Gerð er grein fyrir því hvernig íslenskri þjóð þyki gróflega að sér vegið með beitingu hryðjuverkalöggjafarinnar. Íslendingar hafi talið sig til nánustu bandamanna Breta á flestum sviðum en hafi nú verið stimplaðir hryðjuverkamenn af þeim síðarnefndu. Kröfur Íslands um afléttingu frystingarinnar eru ítrekaðar og vakin athygli á mikilvægi þess fyrir samskipti þjóðanna.

Þá er bent á vilja Íslands til samstarfs um endurskoðun fjármálalöggjafar Evrópu enda hafi núgildandi regluverk magnað vandamál Íslands. Að lokum er vakin athygli á því að á síðustu vikum hafa komið fram vísbendingar um að verulega muni greiðast uppí þann hluta krafna innistæðueigenda sem ekki hafi þegar verið mætt af innistæðutryggingum.

Bréfin eru efnislega samhljóða.

12. maí 2009



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum