Hoppa yfir valmynd
3. desember 2008 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra undirritar samning um bann við klasasprengjum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra undirritar samning um bann við klasasprengjum
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, undirritar samning um bann við klasasprengjum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, undirritaði í Osló í dag alþjóðlegan samning um bann við klasasprengjum. Samningurinn bannar þróun, framleiðslu, notkun, birgðasöfnun og afhendingu klasasprengja. Samningurinn var undirritaður af hálfu 125 ríkja í dag.

Að þessu tilefni sagði utanríkisráðherra að samningurinn boðaði nýja von fyrir þúsundir manna sem búa við þá ógn sem af klasasprengjum stafar. Hafa þær orðið fjölda óbreyttra borgara að fjörtjóni löngu eftir að vopnuðum átökum lýkur.

Noregur, Perú, Austurríki, Nýja Sjáland og Írland fóru fyrir gerð samningsins um bann við klasasprengjum en Ísland hefur frá upphafi tekið þátt í samningsferlinu. Þá hafa Rauði Krossinn og önnur frjáls félagasamtök einnig beitt sér fyrir banninu.

Ísland hefur aðstoðað önnur ríki við hreinsum klasasprengjusvæða, nú síðast Líbanon. Ísland hefur einnig aðstoðað fórnarlömb jarð- og klasasprengja, m.a. með því að styrkja smíði gerfilima. Samningurinn sem undirritaður var í dag gerir ráð fyrir áframhaldandi alþjóðasamstarfi á þessu sviði, bæði hreinsun svæða þar sem klasasprengjum hefur verið beitt, svo og aðstoð við fórnarlömb. Mikið starf er einnig framundan við eyðingu birgða.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum