Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2008 Utanríkisráðuneytið

Nefnd kanni atvik tengd árás á friðargæsluliða í Kabúl 2004

Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur fengið tvo fyrrverandi hæstaréttardómara, Guðrúnu Erlendsdóttur og Harald Henrysson, til að yfirfara og kanna atvik varðandi sprengjuárás á íslenska friðargæsluliða í Kabúl í október 2004.

Utanríkisráðuneytið mun veita þeim aðgang að öllum skjölum um málið, auk þess að leggja til aðstoðarmann við utanumhald og skýrslugerð. Meginverkefnið er að fá sem skýrasta mynd af atburðum með viðtölum, yfirferð gagna og frekari gagnaöflun ef þurfa þykir, sérstaklega varðandi aðdraganda, ákvarðanatöku og viðbrögð á vettvangi, svo og meðferð málsins af hálfu ráðuneytisins. Svo að fyllstu sanngirni og hlutlægni sé gætt, telur ráðuneytið mikilvægt að öllum aðilum verði gefinn kostur á að lýsa sinni hlið.

Margir eiga um sárt að binda vegna árásarinnar en hún varð þess valdandi meðal annars að tveir létust og íslenskir friðargæsluliðar slösuðust. Er óskað eftir að skýrsluhöfundar kanni hvernig með málið var farið og hvort ráðuneytið hafi rækt sínar skyldur og ábyrgð. Einnig er skýrsluhöfundum ætlað að gera tillögur um frekari viðbrögð eða úrbætur ef ástæða þykir til.

Óskað hefur verið eftir að skýrsla liggi fyrir sumarið 2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum