Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2008 Utanríkisráðuneytið

Háskólafundaröð: Ísland á alþjóðavettvangi - erindi og ávinningur

Utanríkisráðherra með háskólarektorum
Utanríkisráðherra með háskólarektorum

Háskólafundaröð

Ísland á alþjóðavettvangi - Erindi og ávinningur

Næst á dagskrá:

Sjálfbær þróun: íslensk náttúra, menning og þekking í alþjóðasamhengi

Málþing í Háskólanum á Hólum

Þriðjudaginn 15. apríl kl 13.15-15.30

Málþinginu verður netvarpað beint á heimasíðunni www.utanrikisraduneyti.is/haskolafundarod ef tæknilegar aðstæður leyfa.

Upptaka af fundinum verður aðgengileg á heimasíðunni á miðvikudag.

Mikilvægi sjálfbærrar þróunar er ótvírætt og umræða um hana skipar veigamikinn sess hjá Sameinuðu Þjóðunum og í allri umræðu um stöðu og framtíð þjóða. Þannig hefur UNESCO tileinkað árabilið til 2014 menntun um sjálfbæra þróun. Málþingið beinir með gagnrýnum hætti sjónum að þeim þáttum í þekkingu, náttúru, sögu og menningu okkar Íslendinga þar sem sérstaða þessara þátta gerir okkur kleift að efla alþjóðleg tengsl og þekkingarmiðlun til alþjóðasamfélagsins stórlega og um leið styrkja okkar eigið samfélag og menningu. Málþingið dregur fram sjónarmið sjálfbærrar þróunar í víðri merkingu og vegur og metur hvað Ísland getur lært af öðrum þjóðum og hvernig Íslendingar í krafti sjálfbærrar þróunar geta tekist á við að bæta menninguna og heiminn.

Dagskrá

Skúli Skúlason, rektor Háskólans á Hólum

Setning málþings

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson

Ávarp

Dr. Þorvarður Árnason, Háskóli Íslands - Háskólasetrið á Hornafirði

Sjálfbært Ísland - falsvon eða fyrirheit?

Í fyrirlestrinum verður sjálfbær þróun skoðuð í víðu ljósi, sem umhverfis- og þróunarstefna. Lykilþættir sjálfbærrar þróunar, svo sem jöfnuður innan og á milli kynslóða, jafnrétti á milli kynja, opið og virkt lýðræði, verða ræddir. Meginspurningin er hvað Ísland hefur fram að færa til þessarar víðu skilgreiningar á sjálfbærri þróun. Mikilvægi menntunar verður ítrekað bæði hvað varðar okkar eigið fólk og eins að við tökum enn ríkari þátt í menntastarfsemi á vegum Sameinuðu þjóðanna og/eða annarra alþjóðlegra samtaka. Kjarni málsins er að þroska enn frekar framlag okkar til alþjóðasamfélagsins sem varðar sjálfbæra þróun.

Dr. Guðrún Helgadóttir, prófessor ferðamáladeild Háskólans á Hólum

Varðveisla með nýtingu: Sjálfbær þróun íslenskrar menningar

Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvað sjálfbær þróun menningar þýðir og m.a. stuðst við þær skilgreiningar sem finna má í lögum og alþjóðasáttmálum um menningarmál, sem Ísland er aðili að. Hugtakið varðveisla með nýtingu verður skoðað nánar í tengslum við markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar ferðafólks. Þá verða reifuð nánar nokkur dæmi úr samtímanum, þar sem reynir á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar við nýtingu á íslenskri menningu og menningararfi, jafnt áþreifanlegum sem óáþreifanlegum.

Dr. Stefán Óli Steingrímsson, dósent fiskeldis- og fiskalíffræðideild

Háskólans á Hólum

Íslensk náttúra: Fjölbreytt eða fátæk

Fjölbreytni náttúrunnar er lykilþáttur í umræðu um sjálfbæra þróun. Náttúra Íslands er mjög sérstæð í þessu tilliti. Í fyrirlestrinum verdur gefið stutt yfirlit yfir fjölbreytni íslenskrar náttúru og meðal helstu lífveruhópa. Jarðfræði Ísland er mjög fjölbreytt en að sama skapi finnast hér almennt fáar tegundir lífvera á landi. Á móti kemur á Íslandi sýna ýmsar lífverur mikinn breytileika á milli stofna og afbrigða innan tegunda. Veitt verður innsýn i eðli þess fjölbreytileika sem finnst hérlendis og mótun hans. Fjallað um viðhorf almennings og vísindamanna til þessa breytileika og verðmæti hans í alþjóðlegu samhengi.

Umræður

Lok málþings

Íslensk stjórnvöld efna til háskólafundaraðarinnar í vetur í samvinnu við alla háskóla landsins, átta talsins. Markmið hennar er að hvetja til aukinnar upplýstrar umræðu um alþjóðamál á Íslandi. Á fundunum verður lögð áhersla á stöðu og hlutverk Íslands á alþjóðavettvangi, auk þess að fjalla um þátttöku Íslands í alþjóðastarfi og einstök verkefni, ekki síst framboð Íslands til Öryggisráðs SÞ.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum