Hoppa yfir valmynd
7. desember 2007 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra sækir ráðherrafund NATO í Brussel

Ráðherrar NATO ríkjanna
Ráðherrar NATO ríkjanna

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 136/2007

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, tók þátt í reglulegum ráðherrafundi NATO í Brussel í dag. Óvenju mörg stór mál lágu fyrir fundi ráðherranna, einkum málefni Kósóvó, Afganistan, stækkun bandalagsins og samskiptin við Rússland, en í beinu framhaldi af ráðherrafundinum kom NATO-Rússlandsráðið saman til fundar sem utanríkisráðherra sótti einnig.

Utanríkisráðherra áréttaði á ráðherrafundinum mikilvægi ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1244 til að skapa þjóðréttarlegan grundvöll fyrir veru NATO-liðsins í Kósóvó. Ráðherra harmaði afstöðu rússneskra stjórnvalda til samningsins um hefðbundinn herafla í Evrópu og þá staðreynd að með afstöðu sinni til kosningaeftirlits á vegum ODIHR, stofnunar ÖSE á þessu sviði, komu þau í veg fyrir að slíkt eftirlit gæti farið fram við nýafstaðnar þingkosningar í Rússlandi. Ráðherra lýsti þeirri skoðun að margt hefði áunnist í Afganistan. Mikilvægast væri að efla góða stjórnarhætti í landinu en vinna markvisst gegn því sem miður færi. Vísaði ráðherra til skýrslu Amnesty International um illa meðferð á föngum í þessu sambandi.

Þá tók utanríkisráðherra einnig þátt í samráðsfundi NATO-ráðherra með utanríkisráðherrum samstarfsríkja við Miðjarðarhafið þar sem rætt var um niðurstöður Annapolis-fundarins og hið nýja friðarferli milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Fagnaði utanríkisráðherra þar árangrinum frá Annapolis og vakti máls á mikilvægi þess að samningsaðilar nýttu sér það frumkvæði í friðarmálum sem forystukonur frá Palestínu og Ísrael hefðu sýnt með samstarfi innan International Women´s Commission.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum