Hoppa yfir valmynd
3. desember 2007 Utanríkisráðuneytið

Starfshópur til að vinna drög að tillögu um ógnarmat fyrir Ísland

Nr. 132/2007

Utanríkisráðherra hefur skipað þverfaglegan starfshóp til að gera vandað og faglegt hættumat fyrir Ísland. Öryggi og varnir landsins standa á sögulegum tímamótum. Með gerbreyttu alþjóðlegu öryggisumhverfi og lokun bandarísku flotastöðvarinnar í Keflavík er brýnt að unnið sé hættumat fyrir Ísland sem leiði af sér umræðu um öryggis- og varnarmál til þess að ná fram almennu sammæli í þeim málaflokki.

Nú nær öryggishugtakið til fleiri þátta en áður þekktist. Öryggis- og varnarmál fjalla ekki eingöngu um hefðbundin stríðsátök heldur einnig um varnir gegn hryðjuverkum og viðbrögð við umhverfisvá, mengun, náttúruhamförum og farsóttum. Starfinu er ætlað að byggja á bestu þekkingu og hópurinn mun víða leita fanga í fræðum og með nánu samstarfi stofnanir í samstarfsríkjum Íslands á sviði öryggismála. Gert er ráð fyrir reglulegum upplýsingafundum með utanríkismálanefnd Alþingis en engir þingmenn sitja í hópnum. Formaður verður Valur Ingimundarson prófessor. Aðrir í nefndinni eru Birna Þórarinsdóttir, stjórnmálafræðingur, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, forstjóri, Einar Benediktsson, sendiherra, Jón Ólafsson, prófessor, Jón Sigurðsson, rekstrarhagfræðingur, Margrét S. Björnsdóttir, forstöðumaður, Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri, Silja Bára Ómarsdóttir, forstöðumaður, Sturla Sigurjónsson, sendiherra, Þór Whitehead, prófessor, Þórir Ibsen, skrifstofustjóri og Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri. Ráðgjafi nefndarinnar verður Alyson Bailes, fyrrverandi forstöðumaður friðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi (SIPRI). Starfsmaður nefndarinnar verður Erlingur Erlingsson, sendiráðsritari. Verklok eru áætluð fyrir næsta haust.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum