Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2007 Utanríkisráðuneytið

Nákvæm leit framkvæmd í flugvél N5025 á Reykjavíkurflugvelli

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 129/2007

Loftfarið N5025 millilenti á Reykjavíkurflugvelli 28. nóvember sl. á leið frá Liverpool til Grænlands. Staðfest er af hálfu tollayfirvalda og lögreglu að tveir tollverðir og einn lögreglumaður fóru um borð í vélina og framkvæmdu nákvæma leit. Ekkert athugavert kom fram. Allir um borð voru bandarískir ríkisborgarar og voru vegabréf þeirra skoðuð.

Vegna fréttar Sjónvarpsins í gærkvöldi verður að taka fram að þannig er upplýst að ekki var um fangaflug að ræða.

Utanríkisráðherra ákvað í sumar að láta sérstakan starfshóp í ráðuneytinu skoða flug meintra fangaflugvéla um íslenskt svæði í kjölfar skýrslu þingmanns á þingi Evrópuráðsins. Í þeirri skýrslu er sérstökum tilmælum beint til nokkurra ríkja en Ísland er ekki í þeirra hópi.

Fram er komið og staðfestist í tilviki vélarinnar N5025, að íslensk stjórnvöld sýna sérstaka árvekni við leit í flugvélum sem bera tiltekin þekkt flugnúmer eða eru á annan hátt sambærilegar þeim vélum sem meint er að hafi verið notaðar til að flytja fanga með hætti sem stríðir gegn alþjóðlegum mannréttindalögum.

Utanríkisráðuneytið mun áfram fylgjast með starfi alþjóðastofnana eða einstakra ríkja til að upplýsa meint ólögmætt fangaflug. Samráði sem þegar er hafið við dómsmálaráðuneyti og samgönguráðuneyti verður haldið áfram eftir því sem efni reynast til.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum