Hoppa yfir valmynd
24. október 2007 Utanríkisráðuneytið

„Ísland á alþjóðavettvangi - erindi og ávinningur - skiptum við máli?”

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 119/2007

Í dag var efnt til málþings í Háskólanum í Reykjavík undir heitinu „Ísland á alþjóðavettvangi - erindi og ávinningur - Skiptum við máli?” þar sem fjallað var um hlutverk og þátttöku Íslands á alþjóðavettvangi í fortíð, nútíð og framtíð. Frummælendur voru Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Vera Knútsdóttir, háskólanemi og formaður ICEMUN á Íslandi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir færði rök fyrir því að Ísland hefði alla burði til að láta til sín taka á alþjóðavettvangi. Tækifærin til að hafa áhrif lægju ekki síst á sviðum þar sem  Íslendingar byggju yfir mikilli þekkingu og reynslu s.s. á sviði sjávarútvegs og málefna hafsins,  á sviði tækniþekkingar á sviði jarðhita og endurnýjanlegra orkugjafa og hvað varðar virkjun og nýtingu „kvenorkunnar” á Íslandi, en athygli hefði vakið að íslensk kona varð fyrst kvenna til að vera kjörin forseti  í lýðræðislegum kosningum í heiminum, á Íslandi getum við státað af sögu kvennaframboða auk þess sem mikil atvinnuþátttaka kvenna í áratugi vekur athygli.

Íslensk stjórnvöld efna til fundaraðarinnar í samstarfi við alla háskóla landsins  og stendur hún fram til vorsins 2008, þegar haldin verður ráðstefnu með þátttöku erlendra og innlendra fræðimanna.  Markmiðið er að hvetja til aukinnar upplýstrar samræðu um alþjóðamál í þjóðfélaginu og sérstaklega um stöðu og hlutverk Íslands á alþjóðavettvangi,  en háskólarnir koma með tillögu að umræðuefnum. Með vandaðri samræðu fræðimanna, stjórnmálamanna, sérfræðinga og almennings er vonast til að hægt verði að varpa nýju ljósi á hlutverk og tækifæri Íslands í alþjóðlegu samstarfi.   Fundaröðinni er einnig ætlað að styrkja tengsl  stjórnvalda við háskóla landsins  í þágu markvissara stefnumótunarstarfs á sviði alþjóða- og utanríkismála í framtíðinni.  Hjálagt er erindi utanríkisráðherra. Frekari upplýsingar og erindi málþinganna er að finna á heimasíðunni www.utanrikisraduneyti.is/haskolafundarod.

                                                                         

Ræða ráðherra

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum