Hoppa yfir valmynd
21. september 2007 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs

Sveinn Björnsson afhendir Filip Vujanovic trúnaðarbréf sitt.
Sveinn Björnsson afhendir Filip Vujanovic, forseta Svartfjallalands trúnaðarbréf sitt að viðstöddum Milan Rocen utanríkisráðherra.

Sveinn Björnsson, sendiherra, afhenti 17. september sl., Filip Vujanovic, forseta Svartfjallalands (Montenegro) trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Svartfjallalandi með aðsetur í Vínarborg.

Ísland viðurkenndi Svartfjallaland í júní 2006, fyrst allra ríkja og hlaut því afhending trúnaðarbréfsins nokkra athygli þar í landi. Eftir athöfnina fóru fram viðræður sem Milan Rocen, utanríkisráðherra tók einnig þátt í. Vujanovic, forseti, kvað það vera sögulega stund að taka á móti fyrsta sendiherra Íslands gagnvart Svartfjallalandi og að það væri mikils metið að Ísland hefði verið fyrsta landið til að viðurkenna Svartfjallaland. Rætt var um framboð Íslands til Öryggisráðsins, möguleikana á tvíhliða samskiptum landanna, einkum á sviði viðskipta, hugsanlegra fjárfestinga af hálfu Íslendinga í Svartfjallalandi og að íslenskir ferðamenn leggðu leið sína til landsins , en Svartfjallaland hefur upp á að bjóða einstaka náttúrufegurð og fallegar strendur. Erlendir fjárfestar taka nú þátt í mikilli uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins í landinu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum