Hoppa yfir valmynd
1. ágúst 2007 Utanríkisráðuneytið

Yfirtaka íslenskra stjórnvalda á starfsemi Ratsjárstofnunar

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 84/2007

Ísland mun yfirtaka starfsemi Ratsjárstofnunar frá og með 15. ágúst nk. Starfshópur skipaður sérfræðingum utanríkisráðuneytisins vinnur nú að undirbúningi snurðulausrar yfirtöku íslenskra stjórnvalda á starfsemi stofnunarinnar og aðlögun að íslenskri stjórnsýslu.

Undanfarna mánuði hafa staðið yfir viðræður Íslands og Bandaríkjanna um framtíð ratsjár- og loftvarnakerfisins á Íslandi. Hingað til hafa Bandaríkin staðið straum af öllum rekstrarkostnaði Ratsjárstofnunar og rekstrarumgjörð hennar mótast af því. Í apríl sl. samþykkti þáverandi ríkisstjórn að heimilaðar yrðu fjárveitingar að upphæð 241 milljón kr. í fjáraukalögum 2007 og 824 milljónir kr. á fjárlögum 2008 vegna reksturs Ratsjárstofnunar.

Á þessum tímamótum er mikilvægt að yfirtakan raski ekki núverandi starfsemi sem lýtur bæði að öryggis- og varnarmálum og borgaralegri flugumferð. Við yfirtökuna verður leitað leiða til að auka hagræðingu í rekstri starfseminnar og draga úr kostnaði ríkissjóðs. Jafnframt verða gildandi kjarasamningar og ráðningarsamningar starfsfólksins virtir.

Starfshópur utanríkisráðuneytisins mun vinna verk sitt í náinni samvinnu við fyrirsvarsmenn Ratsjárstofnunarinnar. Aðlögun starfseminnar að íslenskri stjórnsýslu mun taka ákveðinn tíma og stefnt er að því að starfshópurinn leggi tillögur sínar fyrir utanríkisráðherra á haustmánuðum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum