Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2007 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra með Ellen Johnson-Sirleaf, forseta Líberíu

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ellen Johnson-Sirleaf og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ellen Johnson-Sirleaf og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 76/2007

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, átti þann 1. júlí síðastliðinn fund með Ellen Johnson-Sirleaf, forseta Líberíu. Boðað var til fundarins eftir viðræður daginn áður við George Wallace, utanríkisráðherra Líberíu. Þær Ingibjörg Sólrún ræddu málefni Afríku og Líberíu, þróunarsamvinnu og stöðu kvenna og hvar þurfi einkum að herða baráttuna til að tryggja konum og börnum mannréttindi og frelsi. Johnson bauð Ingibjörgu Sólrúnu til ráðstefnu um málefni kvenna í Afríku sem haldin verður í hennar nafni vorið 2009. Alþjóðasamfélagið bindur miklar vonir við stjórn Johnson-Sirleaf, sem hefur einbeitt sér að útrýma spillingu og þjóðflokkaerjum í landinu.

Johnson-Sirleaf var kosin forseti Líberíu í kosningum 2005 og tók við embætti í upphafi síðasta árs. Forsetinn er bæði þjóðhöfðingi og fer fyrir ríkisstjórninni. Johnson-Sirleaf er fyrsta konan í Afríku sem er lýðræðislega kjörin til að gegna embætti þjóðhöfðingja og önnur sem er kjörin til forsætis í ríkisstjórn.

_______________________________________

Johnson-Sirleaf er með hagfræði- og MPA-gráður frá bandarískum háskólum, m.a. Harvard. Eftir að námi lauk sneri hún aftur til Líberíu og var fyrst aðstoðarráðherra og síðar fjármálaráðherra á 8. áratugnum, þangað til ríkisstjórninni var steypt í byltingu 1980. Hún hóf þá störf hjá Citibank og Alþjóðabankanum í Afríku og Washington, fyrir utan stutt tímabil þar sem hún var öldungardeildarþingmaður í Líberíu og var fangelsuð fyrir landráð vegna gagnrýni á einræðisstjórn landsins. Um tíma starfaði hún einnig hjá Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og skrifaði ásamt Elísabetu Rehn, fyrrverandi varnamálaráðherra Finnlands, merkilega skýrslu á vegum S.þ. um áhrif stríðs á stöðu kvenna.

Líbería átti í blóðugu borgarastríði frá 1990 til 2003 en Johnson-Sirleaf bauð sig fram 1997 án árangurs gegn Charles Taylor, sem nú er fyrir rétti hjá Alþjóðastríðsglæpadómstólnum. Eftir að Taylor var hrakinn frá völdum 2003 og vopnahlé komst á í borgarastríðinu bauð hún sig aftur fram, þar sem hún atti kappi við fótboltahetjuna George Weah og sigraði kosningarnar með um 60% atkvæða. Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið úrskurðuðu kosningarnar frjálsar og lýðræðislegar.

Líbería er enn í sárum eftir borgarastríðið og bæði efnahagslífið og samfélagið þarfnast mikillar uppbyggingar. Alþjóðasamfélagið hefur bundið miklar vonir við forystu Johnson-Sirleaf. Stuðningsmenn hennar kalla hana járnfrúna  en hún hefur einbeitt sér að því að útrýma spillingu og þjóðflokkaerjum í Líberíu, um leið og landið er byggt upp. Það hefur ekki verið hvað síst vegna orðspors forsetans að þróunaraðstoð við Líberíu hefur aukist mikið á síðustu misserum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum