Hoppa yfir valmynd
8. júní 2007 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna í Helsinki

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 64/2007

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sat í dag fund utanríkisráðherra Norðurlandanna í Helsinki, en Finnar gegna formennsku í norrænu ráðherranefndinni um þessar mundir. Utanríkisráðherra leiddi umræður um loftslagsmálin og voru ráðherrarnir sammála um að Norðurlöndin ættu að gegna lykilhlutverki í að raunhæf og metnaðarfull niðurstaða náist á ráðherrafundi Loftslagssamningsins í Kaupmannahöfn 2009. Ráðherrarnir ræddu um svæðisbundið samstarf, þ.m.t. norðurslóðamál og hugmyndir um hvernig efla megi vettvang Eystrasaltsráðsins. Einnig voru rædd málefni Balkanskaga, einkum staða Kósóvó, alvarlegt ástand mála fyrir botni Miðjarðarhafs og neyðarástandið í Darfúr.

Fyrir fundinn kynnti utanríkisráðherra sér starfsemi íslenskra fyrirtækja í Finnlandi og undirbúning stofnunar Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins í Helsinki þann 20. júní n.k. Ráðherra heimsótti útibú Kaupþings í Finnlandi og aðalskrifstofur Norræna fjárfestingarbankans.

Fundur utanríkisráðherra NordurlandannaAð fundi loknum átti ráðherra fund með finnskum starfsbróður sínum, Ilkka Kanerva, og ræddu þau samskipti ríkjanna, m.a. viðskipti og fjárfestingar. Þau ræddu einnig samstarf Norðurlandanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og framboð ríkjanna til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ísland er í framboði til öryggisráðsins fyrir tímabilið 2009-2010 en Finnland fyrir tímabilið 2013-2014. Rætt var um helstu áherslur landanna og hvernig þau geta unnið saman á vettvangi öryggisráðsins. Öll Norðurlöndin vinna saman að því markmiði að Ísland og Finnland nái kjöri til öryggisráðsins fyrir ofangreind tímabil og líta á framboðin sem norræn framboð.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum